Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:36:01 (642)

1998-10-22 14:36:01# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ætlum við að horfa upp á stórar byggðir, víðlendar byggðir eyðast? Við erum að reyna að svara þeirri spurningu á þá leið að við viljum ekki horfa upp á það aðgerðarlaus. Nú um stundir eru efnahagslegar forsendur fyrir því að við getum tekið á byggðamálum og byggðavandamálum. Við getum sem ein þjóð í einu landi tekið upp umræðuna um hvernig við viljum byggja landið. Við eigum val og höfum reyndar ekki efni á því að láta tímann líða án þess að bregðast við.

Víða um landið er byggð mjög hætt og búast má við að miklu meiri breyting verði í framtíðinni ef ekki verður nú brugðist við. Byggðin getur víðast hvar ekki grisjast mikið úr þessu án þess að hún einfaldlega hrynji. Félagslegar og ýmsar aðrar forsendur vantar til þess að halda henni gangandi ef enn fækkar fólki á vissum svæðum.

Það er lag að bregðast við, herra forseti, í góðæri. Það er lag líka þar sem tillögur hæstv. forsrh. í byggðamálum eru yfirgripsmiklar og raunhæfar. Við hljótum að gera byggðamálin að höfuðviðfangsefni okkar á næstu mánuðum, taka raunhæfar og ábyrgar ákvarðanir í framhaldi af tillögum hæstv. forsrh. sem skili sér öllum landsmönnum til hagsbóta því eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er þetta málefni allrar þjóðarinnar, mikið hagsmunamálefni allra. Ég hvet því til þess að við látum hvergi slaka verða á í umræðunni.