Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:46:51 (647)

1998-10-22 14:46:51# 123. lþ. 15.15 fundur 110. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðjöfnunargjald af kindakjöti o.fl.) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum, á þskj. 110, 110. mál.

Frv. felur í sér breytingu á ákvæðum búvörulaga um verðmiðlunargjöld og verðskerðingargjöld. Tillögur um þær breytingar sem hér um ræðir hafa borist frá búgreinafélögum þeim sem hlut eiga að máli. Landssamtök sauðfjárbænda hafa þannig gert tillögu um afnám verðskerðingargjalda og lækkun á verðjöfnunargjaldi af kindakjöti og Landssamband kúabænda hefur gert tillögu um lækkun á verðskerðingargjöldum af nautakjöti. Bændasamtök Íslands hafa síðan fylgt þessum óskum eftir með erindrekstri við landbrn. Tillögur þessara aðila eru því teknar upp í þessu frv.

Samkvæmt frv. verður verðjöfnunargjald af kindakjöti, skv. 19. gr. laganna, lækkað úr 7 kr. í 5 kr. á kg. Verðskerðingargjöld af kindakjöti, skv. 20. gr. sömu laga, eru afnumin og verðskerðingargjöld af nautakjöti lækkuð úr 600 kr. í 400 kr. á alla slátraða gripi sem flokkast í ákveðnum gæðaflokkum. Gert er ráð fyrir að breytingar þessar taki gildi 1. september 1998 skv. ákvæði til bráðabirgða í frv. Verðmiðlunar- og verðskerðingargjöld sem innheimt hafa verið eftir 1. september og fram að gildistöku laganna verða því endurgreidd framleiðendum og sláturleyfishöfum í samræmi við ákvæði frv.

Í umsögn fjmrn. um kostnaðaráhrif kemur fram að tekjur af verðmiðlunargjaldi og verðskerðingargjöldum fyrir árið 1999 séu áætlaðar alls 110 millj. kr. í fjárlögum. Þar sem þessum gjöldum er ætlað að jafna flutningskostnað frá framleiðendum til afurðastöðva og til markaðsaðgerða vegna nautgripa- og sauðfjárafurða mun breyting á tekjum af gjöldunum ekki hafa nein áhrif á afkomu ríkissjóðs, hvorki til né frá.

Hæstv. forseti. Ég hef lýst þeim áhrifum sem frv. þetta hefur á verðmyndun búvara, verði það að lögum. Að öðru leyti vísa ég til grg. með frv.

Ég leyfi mér í framhaldi af því, hæstv. forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.