Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:26:22 (650)

1998-10-22 15:26:22# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var afskaplega ánægð að á lista yfir fyrirhuguð frumvörp ríkisstjórnarinnar var boðað frv. um breytingar á lögum um vernd barna og ungmenna. Þetta eru þýðingarmikil lög en því miður er mörgu ábótavant í þeirri lagasetningu miðað við verkefnin sem eru aðkallandi í dag.

Aukin áhersla hefur verið lögð á málefni barna á liðnum árum og að mínu mati var það mjög til góðs að flytja þau til félmrn. frá menntmrn. Uppbyggingin hefur verið farsæl og skipulagsbreytingar hafa fært málaflokkinn til betri vegar.

Barnaverndarstofa hefur þegar sannað gildi sitt og það skiptir miklu máli að þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru fyrir fáum árum virðast réttar. Þó ég sé sátt við þessa þróun, herra forseti, þá erum við enn allt of skammt á veg komin og við verðum að veita meira fjármagn til aðkallandi aðgerða í málaflokknum. Við verðum að finna betri stuðningsúrræði. Sumt er dýrt en annað er fyrst og fremst vinnulag sem eiga verður stoð í lagasetningu og úr því verður að bæta. Þess vegna, herra forseti, var ég ákaflega vonsvikin að lesa þetta frv.

Eins og fram kemur í framsögu félmrh. er í frv. fyrst og fremst brugðist við breytingum sem hækkun sjálfræðisaldurs hefur í för með sér. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að gera orðalagsbreytingar á lögum vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Þetta frv. er fyrst og fremst og nær eingöngu tæknilegs eðlis og mér finnst það miður. Það kemur fram, bæði í máli ráðherrans og í greinargerð með frv. að nefnd hefur starfað að endurskoðun laganna í heild sinni. Mig grunar að nokkuð langt sé síðan þessi nefnd var skipuð.

Mér finnst endurskoðun þessara laga afar brýnt verkefni. Eins og ráðherra orðaði það, ef auðnast að starfa af þrótti þá er e.t.v. hægt að sýna frv. fyrir þinglok. Þar með er ráðherrann að gefa vísbendingu um að endurskoðuninni ljúka nógu tímanlega til þess að breyta lögunum á þessum síðasta vetri kjörtímabils þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna spyr ég ráðherrann: Hvenær skipaði hann nefndina og hvað líður störfum hennar?

[15:30]

Ég hefði verið afskaplega ánægð að sjá metnað ráðherra í þessum málaflokki og að hann hefði lagt alla áherslu á að nefndin góða væri búin að skila niðurstöðu og kynnti fyrir okkur niðurstöðu þess starfs.

Í grg. með frv. er vísað til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Sérstaklega er vísað í 5. og 12. gr. samningsins og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Aðildarríki skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra, eða eftir því sem við á þeirra sem tilheyra stórfjölskyldu eða samfélagi samkvæmt staðbundnum venjum, eða lögráðamanna eða annarra sem að lögum eru ábyrgir fyrir barni, til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum.``

Og enn fremur er sagt:

,,Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.``

Í tilefni af þessu ákvæði barnasáttmálans er bætt við einum málslið í 1. gr. laganna um að börn skuli ,,njóta réttinda í samræmi við vaxandi aldur og þroska.``

Í grg. er gefið til kynna að það sé nýmæli að börnum sé gefinn kostur á að tjá sig um mál sitt. 24. gr. kveður á um að barn eigi kost á að tjá sig en í þeirri grein er jafnframt ákvæði um talsmann barna. Samkvæmt barnasáttmálanum sem ég var að vísa til skal stefnt að því markmiði að barnið skuli njóta réttinda og axli ábyrgð í samræmi við aldur þess og þroska. Tjáningarfrelsið verði því að skoðast í samræmi við þessa meginreglu, þ.e. að leitað verði eftir afstöðu barnsins til málefna sem varða það sjálft eftir því sem aldur og þroski verður meiri.

Hlutverk talsmanns hlýtur að öðrum þræði að vera að gæta þess að tekið verði tillit til afstöðu og óska barnsins. Hins vegar er hlutverk talsmanns víðtækara. Hann á í hvívetna að gæta hagsmuna barnsins þegar togast er á um hagsmuni þess.

Í lögunum um vernd barna og ungmenna er gert ráð fyrir að heimilt sé að skipa barni talsmann. Í fyrsta lagi samkvæmt 2. mgr. 22. gr. er heimilt að skipa barni talsmann þegar það er vistað á stofnun eða meðferðarheimili gegn vilja þess og er hér um aðgerðir að ræða til að vernda barn gegn eigin hegðun. Svo er og samkvæmt 3. mgr. 23. gr.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að skipa megi barni talsmann áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, t.d. varðandi brotttöku þess af heimili til vistunar á fósturheimili. Í 3. mgr. 46. gr. segir að þegar sérstaklega standi á sé barnaverndarnefnd heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann. Svona er þetta í lögunum núna.

Í reynd hefur heimild ekki mikið verið beitt. Ég hef lagt inn fyrirspurn um skipaðan talsmann í barnaverndarmálum og bíð svars við henni. Ég tel að hér sé um svo mikilvægt atriði að ræða að vanda verði sérstaklega til allrar málsmeðferðar og tel því, og hef reyndar flutt mál í tvígang sem byggt er á þessari skoðun, að hér eigi ekki að vera um heimild að ræða heldur skyldu, að auðvitað eigi að skipa barni talsmann við þessar aðstæður.

Herra forseti. Ég lét þess getið að ég hefði sett fram fyrirspurn um hversu oft talsmaður hafi verið skipaður í barnaverndarmálum en á síðasta þingi bar ég fram fyrirspurn til dómsmrh. um skipaðan talsmann í forsjármálum, þ.e. hversu oft barni hafi verið skipaður talsmaður til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls frá því að heimildin var sett í barnalög bæði þegar dómstóll sker úr ágreiningsmáli og dómsmrn. fer með úrskurðarvald. Í svarinu kom fram að aldrei hefur komið til þess að talsmaður hafi verið skipaður á grundvelli barnalaganna og að dómsmrn. hafi heldur ekki skipað slíkan talsmann. Við eigum eftir að sjá hvað kemur fram í svarinu frá félmrh. um talsmann í barnaverndarmálum en þetta er afskaplega stórt mál. Að mínu mati á að vera skylda að skipa talsmann. Þetta á sérstaklega við þegar gætt er að málsmeðferðinni við framkvæmd barnaverndarmála.

Í VIII. kafla laganna er mælt fyrir um málsmeðferðina við forsjársviptingu en barnaverndarnefndir fara með slíkt vald.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera og mun gera að umtalsefni atriði sem eru að finna í lögum um vernd barna og ungmenna og þurfa að taka breytingum að mínu mati og atriði sem ég sakna í þessu frv. í trausti þess að e.t.v. fáist stuðningur við það í félmn. að ef þessar ábendingar mínar eru réttar sé hugsanlegt að félmn. lagfæri þessa þætti í umfjöllun sinni um frv. sem liggur fyrir. Þess vegna langar mig til að við skoðum aðeins kaflann sem lýtur að valdi barnaverndarnefnda og forsjársviptingu. Þegar við skoðum þennan kafla sjáum við að hlutverk barnaverndarnefnda er margþætt. Þær eiga með öðrum orðum að hafa eftirlit með aðbúnaði barna, taka á móti ábendingum um slæman aðbúnað barna, sjá um skráningu barna í áhættuhópa, kanna mál þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um vanrækslu eða vanhæfni foreldra, gera áætlanir um meðferð mála og úrskurða um forræðissviptingu foreldra þegar það á við.

Herra forseti. Hér sjáum við hið gamla réttarfar í hnotskurn. Sama stjórnvaldið tekur við ábendingum, rannsakar málið og endar síðan með að úrskurða í málinu. Barnaverndarnefnd fer bæði með rannsóknarvald og úrskurðarvald. Ég vil taka það sérstaklega fram og tala af reynslu að störf barnaverndarnefndar eru afskaplega viðkvæm og erfið. Ég held að ég geti mælt fyrir munn flestra sem hafa tekið þátt í þeim störfum að þau ganga nærri fólki vegna þess að farið inn í einkalíf og viðkvæmustu mál fjölskyldunnar og það er þungt verkefni að barnaverndarnefnd skuli fara með rannsóknarvald og úrskurðarvald. Úrskurðinum er reyndar hægt að skjóta til barnaverndarráðs til fullnaðarúrskurðar. Þannig er fullnaðarákvörðun alltaf tekin á stjórnsýslustigi en þetta hefur sætt gagnrýni sérfræðinga sem fjalla um þessi mál, svo og fræðimanna. Þegar þess er gætt að um svo alvarleg inngrip í friðhelgi og einkalíf einstaklinga er að ræða þarf að vanda sérstaklega til allrar málsmeðferðar og því væri eðlilegra að skipta valdinu að einhverju leyti upp, þ.e. að aðgreina rannsóknarþáttinn frá úrskurðarþættinum. Spyrja á hvort dómstólar eigi að koma að þessum málum, annaðhvort að ákvörðunin liggi hjá dómstólum en rannsóknar- og eftirlitsþáttur hjá barnaverndarnefndum eða a.m.k. sé unnt að skjóta ákvörðunum barnaverndarnefnda til dómstóla. Þessa umræðu höfum við ekki tekið í þessum sal eða í félmn. og þetta er brýn umræða og afar stórt verkefni að leysa.

Herra forseti. Þetta frv. gefur tilefni til að fjalla um mikilvæg atriði í barnavernd sem ekki er að finna í frv. eins og ég hef þegar getið. Barnaverndarmálin eru mjög stór en viðkvæmur þáttur fjölskyldumálanna. Það er því erfitt að þurfa að horfast í augu við að enn þá eigi að bíða heildarendurskoðunar nefndar sem hefur verið mjög lengi að störfum, ef ég man rétt, og ekki er vitað hvenær hún lýkur störfum. Hugsanlega verður bara sýnt frv. fyrir þinglok.

Þetta gefur mér líka tilefni til þess, herra forseti, að víkja að tillögu sem undirrituð ásamt fleiri þingmönnum úr þingflokki jafnaðarmanna flutti á síðasta þingi. Ég fékk því miður ekki að mæla fyrir því ágæta máli, væntanlega vegna annarra mikilvægari mála sem höfðu forgang á dagskrá Alþingis. Um er að ræða till. til þál. að bæta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta mál er að verða tilbúið hjá mér til endurflutnings en ég hef valið að bíða eftir nýjum talnalegum upplýsingum sem varpa ljósi á stöðuna í málaflokknum. Ég hef í þeirri tillögu lagt það til, virðulegi forseti, að dómsmrh. skipi nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að gera úttekt á framkvæmd laga sem snúa að börnum í sama tilgangi og að meta hvort rétt sé að lögleiða sáttmálann í heild sinni. Auðvitað mun þetta mál koma til umræðu síðar, en mér finnst eðlilegt að benda á það þegar ég er að tala um hin brýnu verkefni og þá endurskoðun sem ég hefði viljað sjá og er ekki að finna í þessu frv.

Mig langar líka að vísa í 19. gr. sáttmálans. Hún er um ofbeldi. Hún er um að vernda börn gegn ofbeldi. Þetta er ákvæði sem kveður á um almenna vernd barna gegn hvers konar ofbeldi, líkamlegu og andlegu, misnotkun og vanrækslu, að meginsjónarmið barnaverndarlaga er að vernda börn gegn slíkri meðferð, samanber enn fremur ákvæði almennra hegningarlaga. Ég tel að í lögin um vernd barna og ungmenna vanti ákvæði um að vernda börn gegn kynferðislegu ofbeldi. Stórt verkefni og vandasamt en ef sáttmáli Sameinuðu þjóðanna treystir sér til að kveða á um í slíkum sáttmála til aðildarríkjanna að taka verði á þessum málum í lögum sem lúta að vernd barna og ungmenna, þá eigum við að skoða þau og ég hefði viljað sjá slíkt ákvæði í endurskoðun laganna um vernd barna og ungmenna.

Enn eitt stórmál, sem ég vil víkja að, herra forseti, er vistun ungra afbrotamanna. Af og til berast okkur fregnir af alvarlegum ágöllum í meðferðarkerfi okkar. Í tillögu minni um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hef ég lagt til að íslensk lög og réttur verði skoðuð, eins og ég hef þegar nefnt, þannig að þau uppfylli öll skilyrði barnasáttmálans. Hér hefði verið gott tækifæri til að bæta löggjöf okkar í barnaverndarmálum og koma líka að þessu ákvæði, nota tækifærið til að bæta réttarstöðu barnanna okkar til áskilnaðar barnasáttmálans. Það er ekki gert og ráðherrann hefur greint frá því að í raun sé bara um nauðsynlegustu orðalagsbreytingar að ræða. Mig langar að vísa í enn eitt ákvæði sem ég tel að taka verði á og er að finna í samningnum um réttindi barna. Það er varðandi unga afbrotamenn. Þar segir um þennan þátt að ekki megi vista unga afbrotamenn með fullorðnum afbrotamönnum. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Gerður var fyrirvari af hálfu Íslands við hliðstæða grein í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. 10. gr. 2. mgr. b-lið og 3. mgr. hans. Það ákvæði er þó afdráttarlausara en c-liður 37. gr.`` --- og er þá vísað til barnasáttmálans --- ,,sem kveður á um að taka beri mið af því sem barni er fyrir bestu.`` Svo segir: ,,Með hliðsjón af ofangreindu og í trausti þess að við ákvörðun um fangelsun ungmenna sé ávallt tekið mið af hvers konar afplánun sé ungmenni fyrir bestu er ekki talið nauðsynlegt að gera fyrirvara við c-lið 37. gr. en rétt talið að gera sérstaka yfirlýsingu um þetta við fullgildingu samningsins.``

Þetta hefur oft borið á góma, sérstaklega þegar við eru að ræða vímuefnavandann og vistun ungra afbrotamanna, að vísað er til bókunar við barnasáttmálann um að ekki sé skylda hjá okkur að uppfylla þetta ákvæði. Ég tel að þetta sé mikill blettur á samfélaginu að vista unga afbrotamenn í fangelsum með fullorðnum afbrotamönnum. Ég tel að það sé tvímælalaust skylda okkar að gera þær breytingar að okkur sé unnt að vera með önnur úrræði. Það er löngu tímabært að aðskilja yngri fanga frá þeim eldri en þar sem ekkert ákvæði er í íslenskum lögum sem verndar börn gegn því að vera vistuð með síbrotamönnum sem gætu haft afar óheppileg áhrif á þroska svo ungra fanga, þá er það gert. Við höfum fengið blaðafregnir um það og ýmislegt hefur verið gagnrýnt hvað varðar það að kornungt fólk afplánar dóma með síbrotamönnum sem hafa haft slæm áhrif á það.

[15:45]

Ég skil ekki af hverju Ísland kaus að vera með þessa yfirlýsingu. Ég þykist vita að á þeim tíma var ekki mikið um að fangelsa þyrfti unga afbrotamenn. Menn voru bjartsýnir á að vandi nágrannalanda, bæði varðandi vímuefnaneyslu og afbrot sem henni fylgja, næði ekki svo hratt til okkar en nú blasir þessi vandi við. Við eigum auðvitað að gera breytingar á lögum og það á að vera skylda okkar að taka á þessu viðkvæma máli.

Í umræðunni sem átt hefur sér stað undanfarið um unga fíkniefnaneytendur og úrræðaleysið kring um það, blasir sú staðreynd við að við höfum látið hjá líða að búa þannig að börnum og unglingum í þessu þjóðfélagi að þau eigi sér viðreisnar von í stað þess að vera brotin niður við fyrstu afbrotin. Þau þurfa meðferð í refsivistinni og við ættum að stefna að því. Við þurfum annaðhvort sérfangelsi fyrir þau eða það sem ég mundi vilja sjá, meðferðarstofnanir. Ungviðið á að ná fullorðinsaldri með aðstoð okkar eldri. Við eigum að sjá til þess að afplánunin verði notuð uppbyggilega og barnið verði í stöðugri meðferð og enduruppbyggingu. Það er auðvitað miklu meiri von til þess að slík úrræði hafi góð áhrif á barnið en óforbetranlegur síbrotamaður sem stundað hefur iðju sína um skeið.

Herra forseti. Ég hef rakið helstu atriði þess sem ég tel að við hefðum átt að gera nú í lögunum um vernd barna og ungmenna. Ég spyr félmrh. hvort nokkur kostur sé að mikilvæg ákvæði, t.d. skyldan um talsmann í málefnum barna, verði lagfærð í störfum félmn.