Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:53:33 (653)

1998-10-22 15:53:33# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég var ein af þeim sem hvöttu mjög til þess að sjálfræðisaldurinn yrði hækkaður í 18 ár á sínum tíma. Ég fagnaði þeirri breytingu mjög. Frv. sem nú er til meðferðar hér, um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna, er fyrst og fremst leiðrétting á lögum í kjölfar þess að sjálfræðisaldurinn var hækkaður.

Ég vil láta ánægju mína í ljós með þetta frv. Börn eru skilgreind upp á nýtt, núna kallast þau börn upp að 18 ára aldri. Þetta stríðir kannski gegn málhefð okkar, að tala um 17 til 18 ára börn, en þetta er gert í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ég tel eðlilegt að hafa sambærilega málnotkun í löggjöf okkar.

Ég fagna málinu sérstaklega þar sem ég hef sjálf langa reynslu af því að vinna við barnaverndarmál frá því að ég sat í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Það var oft mjög erfitt að horfa upp á réttleysi eldri barna varðandi mál er vörðuðu þau sjálf, ég vil þess vegna sérstaklega fagna ákvæðunum í 15. gr. og einnig í 1. gr. þar sem segir að börn skuli njóta réttinda í samræmi við vaxandi aldur og þroska. Ég tel mjög mikilvægt, t.d. í sambandi við forræðisdeilur og annað slíkt, að hlusta á börn. Oft er þar miðað við 12 ára en ég held að óhjákvæmilega hljóti að verða ýmislegt á aldrinum 16 til 18 ára sem snerti mál af þessum toga. Nauðsynlegt er að virða sjónarmið þeirra og hlusta á þau þó að vissulega séu foreldrarnir með forræðið.

Ég fagna þeim breytingum sem einnig koma fram í 15. gr., að foreldrum er treyst til að meta það hve lengi börn þeirra eiga að vera í meðferð hugsanlega, ef til vímuefnameðferðar kemur. Jafnframt er komið á móti með því að tryggja börnunum talsmann. Ég tel að þetta frv. sé mjög mikilvægt til þess að koma til móts við hækkun sjálfræðisaldurs en jafnframt þarf að skoða kostnaðarliðinn betur. Gera þarf átak í meðferðarmálum ungra fíkniefnaneytenda. Að börnin séu alfarið á fullorðinsstofnunum er og hefur alltaf verið óviðsættanlegt en núna finnst mér réttur þeirra skýrari.

Ég vona svo sannarlega að gert verði átak í þeim efnum, hvort sem það verður eingöngu á vegum Barnaverndarstofu eða líka á vegum annarra aðila. Vímulaus æska hefur borið fram óskir um að hægt verði að vista börn á slíkum heimilum án milligöngu barnaverndarnefnda og einnig hefur komið í ljós að SÁÁ fyrirhugar að setja upp unglingadeild hjá sér. Ég held að við ættum bara að reyna að nýta krafta sem flestra á þessu sviði. Það er alls ekki þolandi að foreldrar og börn þurfi að bíða eftir meðferð, allt að átta mánuði eins og nú er.