Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:57:52 (654)

1998-10-22 15:57:52# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir málefnalegar umræður sem hér hafa farið fram um þetta mál og hyggst reyna að svara nokkrum þeirra spurninga sem beint hefur verið til mín.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði hverjir væru í endurskoðunarnefndinni. Svo ég rekji það stuttlega þá var að störfum nefnd til endurskoðunar á barnaverndarlögum þegar ég kom í félmrn. Mér er ekki kunnugt um hvaða ráðherra skipaði hana þar eð um þrjá er að ræða. Nefndin skilaði ekki áliti og málið var í lausu lofti í nokkurn tíma.

Núverandi nefnd, sem var skipuð 15. des. 1997, hefur haldið nokkra fundi og leitað álits fjölmargra vegna endurskoðunarinnar og mikil vinna hefur farið fram á milli fundanna.

[16:00]

Það er rétt ég fari aðeins yfir það hverjir eru í nefndinni. Það er Davíð Þór Björgvinsson prófessor, sem er formaður, Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu og fyrrum aðstoðarmaður félmrh. Rannveigar Guðmundsdóttur, Hrefna Friðriksdóttir, sem er lögfræðingur á Barnaverndarstofu, Ingibjörg Broddadóttir, deildarstjóri í félmrn., en hún er í leyfi núna og við störfum hennar tók Guðrún Ögmundsdóttir, deildarstjóri í félmrn., Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjóri í félmrn., er líka í nefndinni. Frá Sambandi ísl. sveitarfélaga voru tilnefnd Benedikt Bogason og Hjördís Hjartardóttir, sem er félagsmálastjóri í Vestur-Húnavatnssýslu, og frá Barnaverndarráði er Guðrún Erna Hreiðarsdóttir í nefndinni.

Ég ber mikið traust til þessa hóps og veit að hann mun vinna vel og samviskusamlega en þarna er um viðkvæma lagasetningu að ræða og vafalaust tekur endurskoðunin töluverðan tíma. Jafnframt þarf Alþingi töluverðan tíma til að fara yfir málið. Þetta er ákaflega viðkvæmt og getur tekið á málefnum fjölskyldna með mjög afgerandi hætti og ég held að ekki megi hrapa að slíkri vinnu. Ég hef út af fyrir sig kannski ekki viljað reka mjög fast á eftir nefndinni en eins og ég sagði áðan þá vonast ég eftir því a.m.k. að geta sýnt frumvarp fyrir þinglok í vor. Upphaflega var það í mínum huga að frumvarpið yrði tilbúið í haust en það verður ekki.

Ég tel hins vegar að sú umræða sem hefur farið fram og ræður þeirra sem hafa tekið til máls eigi erindi í nefndina og ég mun beita mér fyrir því að hún hafi aðgang að umræðunni og þá ekki síst athugasemdum hv. 5. þm. Reykn., sem benti á ýmsa hluti sem hún taldi að betur mættu fara í barnaverndarlögunum og það er sjálfsagt að halda því til haga.

Hv. þm. spurði hvort ég væri til viðtals um að gera talsmann að skyldu ef því yrði breytt í hv. félmn. Ég segi ekki Alþingi fyrir verkum, svo það sé alveg klárt, en ef hv. félmn. og Alþingi þykir viðeigandi eða tiltækilegt að gera þetta að skyldu er það ekki í neinum blóra við mig. Hitt er annað mál að þetta atriði er ekki í þessu frv. vegna þess að ég taldi að það gæti beðið eftir heildarendurskoðuninni úr því hún stóð yfir. Við erum fyrst og fremst að bregðast við hinum brýna vanda dagsins.

Hv. 5. þm. Reykn. hefur beint til mín fyrirspurn um hve oft talsmaður hefði verið skipaður. Í félmrn. er verið að afla gagna til að svara þeirri fyrirspurn, sem ég vonast til að geta gert í næsta fyrirspurnatíma, og ég hafi þá tilbúið svar í höndum, en það þarf að leita að og telja saman þessi tilvik og það er dálítið verk.

Nú hefur það komið fram að óheppilegt sé að hafa unga afbrotamenn í fangelsum með hinum eldri. Það eru ýmsar hliðar á því máli. Ég hygg að allir geti verið sammála um að ekki sé heppilegt að hafa unga afbrotamenn og þá eldri saman í fangelsum. Það væri betra að koma á meðferðarúrræðum fyrir hina yngri fremur en að dæma þá til fangelsisvistar.

Raunar hafa ekkert mjög margir verið dæmdir til fangelsisvistar á undanförnum árum. Í svari frá hæstv. dómsmrh. 30. mars 1998, þ.e. í fyrravor, kom fram að fjórir yngri en 18 ára voru í fangelsum eða luku fangelsisvist á árinu 1996, og tveir á árinu 1997 sem voru yngri en 18 ára. Menn mega því ekki halda að þarna sé um einhvern fjölda að ræða.

Á vegum okkar í félmrn. eða Barnaverndarstofu er verið að koma upp sérstöku úrræði, sérstöku meðferðarheimili fyrir þá erfiðustu af unglingunum í Háholti í Skagafirði og verður það tekið í gagnið um áramótin. Það er von okkar að það verði til þess að ekki þurfi að dæma unglinga til fangelsisvistar nema um mjög alvarleg afbrot sé að ræða --- eða ég ætti náttúrlega að segja börn ef þetta frv. væri orðið að lögum.

Talað hefur verið um úrræðaleysi í meðferð ungra fíkla. Ég vil ekki viðurkenna að um úrræðaleysi sé að ræða. Það eru ófyrirséð atvik eða atvik sem mönnum voru a.m.k. ekki að fullu ljós sem hafa orðið til þess að slíkir biðlistar hafa orðið til. Ég vakti strax athygli á því þegar lögræðislögin voru til meðferðar á Alþingi í fyrra að þetta mundi hafa í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir félmrn. Ég nefndi 90 millj. í því sambandi. Á fjárlögum þessa árs eru 20 millj. út af þessari hækkun. Ég svaraði óundirbúinni fsp. fyrir nokkrum dögum þar sem þetta mál bar á góma og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir spurði. Síðan hef ég tekið málið upp í ríkisstjórn og það eru á fjáraukalögum þessa árs, eða í frv. til fjáraukalaga, 10 millj. til viðbótar til að bregðast við þessum vanda og 30 millj. sem gerð verður tillaga um að komi inn í fjárlög næsta árs. Til viðbótar þeim 20 millj. sem ætlaðar voru í málaflokkinn eru því komnar 80 millj. þarna inn. Ég get fyrstur manna viðurkennt að það er of lítið, en ætti þó að nýtast til töluverðra úrbóta.

Ég hef verið í viðræðum við Reykjavíkurborg um útvegun húsnæðis og Rauða krossinn um samstarf í þessum efnum og báðir þessir aðilar hafa tekið mjög jákvætt í að koma til liðs við okkur því þetta er ekki vandi sem félmrn. eitt eða Barnaverndarstofa getur leyst, hér þarf sameiginlegt átak. Það er hagur bæði sveitarfélagsins, Reykjavíkurborgar, og Rauða krossins sem mannúðarstofnunar að leggja þarna hönd á plóg og ég er sannfærður um að það muni takast.

Það er mikið til af húsnæði í eigu ríkisins sem ekki er nýtt og líka í eigu sveitarfélaga. Ég nefni heimavistarskóla víða eða sums staðar um land sem standa auðir, Staðarborg í Breiðdal, þar er heimavistarskóli sem ekkert er notaður og hefur ekki verið notaður í nokkur ár, ágætis hús. Ég nefni Núpsskóla, ég nefni Húsmæðraskólann á Laugalandi. Það er ekki óeðlilegt að láta sér detta í hug að eitthvað af þessum stofnunum eða húsnæði væri hægt að nota til að bæta úr brýnum vanda sem er í þessum málaflokki um meðferðarúrræði. En sérfræðiliðið er yfirleitt staðsett í Reykjavík og því þykir nú langt út á land svo ég veit ekki hvernig þetta gengur en vek athygli á því hér. Ég vil láta það koma fram að bæði Reykjavíkurborg og Rauði krossinn eru mjög jákvæð að koma til samstarfs við okkur í félmrn. um úrbætur varðandi þessi fíkniefnamál.