Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:18:14 (659)

1998-10-22 16:18:14# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Varðandi þetta með lögregluna, herra forseti, þá ætla ég að hugga ráðherrann því að kannski er verið að vísa til hæðar sem gerðar eru kröfur um. Ég ætla að hugga ráðherrann með því að hann sýnist kannski lægri en hann er af því hann er þéttur á velli.

Vegna orðaskipta hér þá ætla ég ekki að leggja mat á hvort um holskeflu sé að ræða, en ástandið er alvarlegt. Efnin eru sterkari, börnin yngri. Eins og félmrh. er kunnugt liggur fyrir beiðni um utandagskrárumræðu um úrræði vegna vímuefnaneyslu barna og það hefur orðið að ráði, m.a. milli mín og hans, að þessi umræða fari fram að lokinni kjördæmaviku. Ég vona að fleiri ráðherrar fáist til að taka þátt í þeirri umræðu vegna þess að vandinn snýr að fleiri ráðuneytum en félmrn. Þar verður að sjálfsögðu komið inn á sum úrræðin sem ég var með ábendingar um og sumt af því sem kom fram hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Ég þakka ráðherranum fyrir svör hans. Ég geri mér grein fyrir því að vinnu nefnda seinkar alltaf þegar þar verða mannaskipti, ég tala nú ekki um ef formaður nefndar víkur úr henni og þarf að byrja upp á nýtt. Og það veldur mér áhyggjum líka núna. Hópurinn sem ráðherrann hefur skipað í núverandi nefnd er hópur mjög hæfra einstaklinga og ég ber til þeirra mikið traust. En það er mikil hætta á því að málið færist á byrjunarreit ef eingöngu næst að koma fram með frumvarp rétt fyrir þinglok og það fyrsta sem gerist hjá hugsanlega nýjum ráðherra er að skipa nýja nefnd og byrja upp á nýtt.

Þess vegna bið ég um að hann reyni að fá nefndina til að haska sér svolítið, og ég þakka fyrir að hann vill koma þessari umræðu á framfæri við nefndina.