Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:22:23 (662)

1998-10-22 16:22:23# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu rétt hjá hv. þingmanni að stjfrv. hafa ekki borist nógu greiðlega til þingsins. Það er slæmt. Það er kannski ekki sérstaklega við okkur í félmrn. að sakast því að við erum komin með nokkur mál inn í þingið. En í farvatninu eru enn frá minni hendi, fyrir utan þetta mál, tvö verulega mikilvæg mál, skulum við segja, sem taka einhvern tíma í umræðu og afgreiðslu á þinginu.

Það er í fyrsta lagi frv. um húsnæðissamvinnufélög sem frestað var í fyrra en hv. þingmenn þekkja. Það verður lagt fram væntanlega lítið breytt en þó með ákveðnum breytingum frá því sem var í fyrravor. Ég geri ráð fyrir því að sæmilega gott samkomulag verði um það mál. Í því er ekki nein bylting.

Í öðru lagi stendur yfir endurskoðun jafnréttislaganna. Hún er á lokastigi og ég vænti þess að koma því máli fyrir þingið innan fárra daga eða fárra vikna, skulum við segja.