Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:41:41 (665)

1998-10-22 16:41:41# 123. lþ. 16.3 fundur 135. mál: #A sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er rétt að hérna er um að ræða mikilvægt mál sem skapar ákveðinn lagaramma um mjög mikilvæga starfsemi sem er til hér á landi. Ef við tökum eitt dæmi af sjálfseignarstofnun þá var það lengst af sjálfseignarstofnun --- og er reyndar enn --- sem rak Landakotsspítala. Sá spítali var því rekinn á grundvelli laga um sjálfseignarstofnun sem ekki voru í raun og veru til skýrar reglur um.

Tilgangurinn með þessu frv., eins og kom fram, er fyrst og fremst að færa rekstrarform sjálfseignarstofnunar sem næst því fyrirkomulagi sem núna er á einkahlutafélögum og hlutafélögum.

Hv. þm. gerir athugasemdir við 16. gr. frv. og ég tek undir með hv. þm. að mér finnst vera fyllilega eðlilegt að efh.- og viðskn. skoði þessa hluti í meðförum hennar á frv. En það er nokkur munur á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi og einkahlutafélagi. Í hlutafélagi og einkahlutafélagi er skylda að halda ársfundi, aðalfundi, á hverju einasta ári þar sem kosnar eru stjórnir fyrir viðkomandi félög. Með sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að stjórnir séu kosnar árlega. Stjórnir geta verið skipaðar til tiltölulega mjög langs tíma hverju sinni. Þess vegna er þetta ákvæði sett inn og það má vel túlka þannig að menn séu býsna refsiglaðir því að hægt er að setja menn úr stjórn viðkomandi stofnunar ef þeir einhverra hluta vegna, t.d. vegna lasleika, geta ekki sinnt skyldum sínum sem stjórnarmenn. Hugsunin sem liggur þarna að baki er fyrst og fremst sú að komi upp einhver vandkvæði, t.d. erfiðleikar í rekstri viðkomandi stofnunar og stjórnin beri ábyrgð á því sem þar hefur gerst, þá geti menn einfaldlega ekki --- af því þeir hafi ekki getað komist út úr stjórninni með því að segja af sér --- borið við lasleika til að firra sig ábyrgð á því sem þar hefur gerst.

Varðandi 44. gr. þá er þar um mjög sambærilegt ákvæði að ræða og er í hlutafélagalöggjöfinni, þó að það snúi dálítið öðruvísi, um að illt umtal eða upplýsingar sem eru veittar um viðkomandi stofnun geti á einhvern hátt orðið til þess að skaða sjálfseignarstofnunina. Slík ákvæði eru til um meðferð trúnaðarupplýsinga innan hlutafélaga sem snúa að stöðu viðkomandi félags og ekki síst ef þær snúa að stöðu félags sem starfandi er á Verðbréfaþingi Íslands og þar fram eftir götunum. Ég vil ítreka það að hér er fyrst og fremst verið að færa þetta form atvinnustarfseminnar, þ.e. sjálfseignarstofnunarformið, sem næst formi annarra félaga eins og einkahlutafélaga og hlutafélaga sem er aðalrekstrarform atvinnulífsins.