Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:08:52 (676)

1998-10-22 18:08:52# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:08]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var spurð að því hvort mér þætti eðlilegt að selja aðgang að þessum lífsýnum eða ekki. Ég hef ekki vegið kosti og galla þess en við fyrstu sýn er ljóst að hingað til hefur ekki verið seldur aðgangur að þessum sýnum. Ég er ekki alveg viss um að ég mundi vilja kvitta upp á það að það yrði gert.

En ég tel að hérna sé það stórt og mikið mál á ferðinni að ég taldi eðlilegt að vekja athygli á því af því ég sé það ekki í frv. að tekið sé beint á þessu. Það er bara sagt að ekki megi selja lífsýnin og ég túlka það sem svo að ekki megi selja þau í heild, í einum pakka, og þau verði horfin um alla eilífð eitthvert annað. En ekkert stendur um það hvort selja megi aðgang að upplýsingunum í hvert skipti sem þeirra er leitað. Það er spurning sem ég tel að við eigum að skoða í heilbr.- og trn.