Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:17:31 (680)

1998-10-22 18:17:31# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Miðað við ræðu hæstv. heilbrrh. þá spyr ég mig óneitanlega að því til hvers við séum að fara yfir þetta efni hér við 1. umr. þegar við fáum ekki meiri viðbrögð og svör eða viðleitni til svara frá hæstv. ráðherra. Og þvílík skemmri skírn í svörum. Hér veltum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson upp grundvallarspurningum sem varða frv. og það er ekki reynt að víkja að því frekar, t.d. varðandi eignarréttarmálið. Það er ekki viðleitni til þess.

Og varðandi hinn þáttinn sem hæstv. ráðherra taldi sig síðast vera að veita einhver svör við, þá varð ég nú ekki mikils vísari við skýringu hennar á 9. gr., þ.e. að það væru mikilvægar heilbrigðisupplýsingar sem leitt gætu til þess að farið væri að ákvæðum 3. mgr. 9. gr. þannig að heimiluð væri notkun lífsýna í öðrum tilgangi en ætlað var þegar þau voru tekin. Ég hefði kosið að heyra frekar frá hæstv. ráðherra um þetta efni en alveg sérstaklega einnig um eignarréttarþáttinn og það sem hæstv. ráðherra kom að fyrst í máli sínu, að ekki sé gert ráð fyrir að selja megi aðgang að lífsýnum. Er þetta svar við spurningu minni um það hvort hægt verði að nýta lífsýni sem safnað er sem hluta af heilbrigðisþjónustu, í hagnaðarskyni, þ.e. upplýsingarnar, rannsóknirnar á grundvelli lífsýnanna, að nýta þær í hagnaðarskyni? Við því vildi ég fá svar, virðulegur forseti.