Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:19:55 (681)

1998-10-22 18:19:55# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:19]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar sárt að valda hv. þm. svo miklum vonbrigðum sem raun ber vitni. Ég hef svarað þeim fyrirspurnum sem hv. þm. lagði fyrir mig. En hann er varkár og stundum töluvert tortrygginn og það er hans háttur.

Varðandi 9. gr. sem hann taldi sig ekki hafa fengið svör við sem hann gæti verið sáttur við, þá er hægt að nefna dæmi. Ég nefni dæmi um stóra aðgerð, t.d. aðgerð á brjósti, að tekið sé brjóst af konu, og það eru frumur í því sýni sem tekið er og geymt. Svo kemur fram á síðari stigum, löngu síðar, að hægt er að nýta þessi sýni, t.d. til að hjálpa öðrum, og þá er heimild til þess án þess að biðja um sérstakt leyfi.

Hvað varðar önnur atriði sem hv. þm. vék að áðan, t.d. eignarréttinn, þá fórum við vel yfir þetta varðandi sjúkraskrárnar. Þar sem sjúkraskrá verður til er hún varðveitt. Hún er varðveitt á þeirri stofnun. Það er eins með lífsýnin að þau eru varðveitt í sérstökum lífsýnabönkum sem hér liggur fyrir frv. um hvernig reka megi og hvert eftirlit eigi að vera með.