Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:21:47 (682)

1998-10-22 18:21:47# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:21]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Málið verður æ torráðnara og óljósara eftir því sem hæstv. ráðherra kemur oftar í stólinn. Ég hélt ekki að hugmyndin með 1. umr. um mál væri að sá sem ber málið fram reyni ekki að varpa ljósi á það með því að svara fyrirspurnum.

Ég var að spyrja um eignarhald á lífsýnum. Ber að skilja hæstv. ráðherra þannig, svo ég reyni að ráða í það, að enginn eigi þau? Þau séu bara varðveitt einhvers staðar, að enginn eigi lífsýnin? Að hæstv. ráðherra hafni því að sá sem lagt hefur lífsýnið til sé eigandi þess? Er hæstv. ráðherra að hafna því? Ég vil ekki tengja þetta sjúkraskránum. Við skulum ekki flækja það með því.

Og þetta með aðgerðina á brjósti sem hæstv. ráðherra tók sem dæmi um mikilvægar heilbrigðisupplýsingar eða þýðingu þeirra í því samhengi, þá er nú hægt að spinna þann lopa nokkuð lengi samkvæmt þessu. Telur hæstv. ráðherra að sýni sem þannig falla til eigi sem sagt almennt að vera aðgengileg, falla undir áætlað samþykki, ef ég reyni að ráða í þetta samhengi? En alveg sérstaklega spyr ég og endurtek held ég í þriðja sinn þá spurningu: Telur hæstv. ráðherra eðlilegt og rétt að nýta upplýsingar sem safnað er innan heilbrigðisþjónustunnar á grunni lífsýna í hagnaðarskyni og liggur það m.a. að baki þessa máls?