Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:40:24 (689)

1998-10-22 18:40:24# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er mætavel kunnugt um að þegar verið er að taka blóðsýni í dag vegna þjónusturannsókna þá eru þau ekki geymd nema í skamman tíma. Það er t.d. reglan sem viðhöfð er með réttu hjá Blóðbankanum.

Ég held því hins vegar fram að þetta frv. opni leiðina til að gera það vegna þess að ekkert er tekið fram um annað í frv. Það er sagt að að jafnaði skuli þjónustusýni ekki geymd, og það er sagt að þeim skuli eytt eftir tímabundna vörslu. Hins vegar kemur fram í einni grein frv. alveg skýlaus réttur til þess að heimila hverjum sem er, sem rekur slíkar stöðvar eða þá lífsýnabanka, að geyma þessi sýni. Það er ekkert sem bannar það. Ég skil ekki nauðsynina á því að opna þennan möguleika.

Ég tel miklu eðlilegra, herra forseti, og vænti þess að hæstv. heilbrrh. hlýði á orð mín, að í staðinn fyrir að opna þennan möguleika með frv. þá ætti að loka honum vegna þess að ég tel að í því fælist aukið öryggi fyrir mig sem einstakling, fyrir stofnanir eins og Blóðbankann sem eru háðar vild og göfugum hvötum almennings. Ég spyr þess vegna hæstv. heilbrrh.: Getur hún ekki fallist á það að í meðförum nefndarinnar þegar hún loksins tekur til við að vinna þetta mál sem verður einhvern tíma í mjög fjarlægri framtíð, miðað við óskir hæstv. heilbrrh., að þessu verði einfaldlega breytt með þessum hætti?