Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:44:06 (692)

1998-10-22 18:44:06# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að ég treysti læknum landsins og heilbrigðisþjónustunni miklu betur en hv. þingmenn sem hér sitja í stólum sínum. Ég treysti því fullkomlega að það sé ekki nýtt nema í þágu læknavísindanna, í þágu þess sem við eiga þegar slíkir dropar eru geymdir. Segjum sem svo að til dæmis fyndist viss stökkbreyting í blóði sjúklings. Þá yrði að sjálfsögðu haft samband við þann einstakling. Síðan væri ljóst að hægt væri að leysa ýmsar gátur, bæta heilsu bæði einstaklingsins og annarra sjúklinga, þá er ég alveg viss um það að sá sem hefði gefið þetta lífsýni væri tilbúinn í að nýta það í þessa góðu þágu og ég sé það á hv. þm. þegar ég horfi á hann að hann væri tilbúinn til þess.

Hvernig heldur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem brosir úti í sal, að vísindin hafi þróast? Heldur hv. þm. að læknavísindin hefðu þróast á þann hátt sem þau hafa gert ef enginn hefði verið tilbúinn að láta nýta lífsýni úr sér t.d. til frekari rannsókna?

Mér finnst alveg rétt að hv. þm. skoði þetta með vissri tortryggni. Það er alveg hárrétt að nálgast málið þannig en ekki með þvílíkri tortryggni sem hér hefur komið fram.