Vatnajökulsþjóðgarður

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:58:14 (696)

1998-10-22 18:58:14# 123. lþ. 16.7 fundur 16. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:58]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir mjög jákvæðar undirtektir við þetta mál. Það kom mér ekki á óvart að hv. þm. lítur ekki ósvipað og sá sem hér stendur á þetta efni. Það er rétt ráðið í það sem skilja mátti á máli hv. þm. að sú tillaga sem flutt var og kom fram á þinginu í miðri þeirri umræðu má segja sem fór hér fram á síðasta þingi, heitri umræðu um málefni miðhálendis Íslands, var af hálfu flm. hugsuð sem þýðingarmikið innlegg inn í meðferð, ráðstöfun og umgengnisrétt á miðhálendi Íslands. Hér er um að ræða geysilega víðlend svæði og talsvert út fyrir þá stóru jökla sem mynda kjarna og taka til 22 þús. km2 lauslega reiknað, þ.e. rösklega fimmtung landsins.

Ég varð var við það í þinginu af hálfu ýmissa, m.a. úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar, að þeir höfðu komið auga á gildi þess að beita náttúruverndarlöggjöfinni með þeim hætti sem þessi tillaga gerir ráð fyrir til þess að bera klæði á vopnin m.a., til þess að ná sátt eða a.m.k. að ná bærilegri sátt við þann fjölda sem vill vernda miðhálendi Íslands fyrir óbornar kynslóðir sem mest í ósnortnu formi.