Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:19:23 (700)

1998-10-22 19:19:23# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., Flm. GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:19]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti þetta svolítið athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni. Hann taldi tillöguna vera óþarfa, talaði svo um að það væri kærkomið fyrir einhverja aðila að komast í að kaupa ÁTVR. Tillagan gengur einfaldlega ekki út á það að selja ÁTVR heldur að selja eignir ÁTVR og leggja stofnunina niður. Það er ekki um það að ræða að fela það einhverjum einum aðila að selja þetta í staðinn fyrir ríkisfyrirtækið. Það er einfaldlega rangt.

Einnig talaði hann um að innan ramma ÁTVR væri hægt að fjölga áfengisútsölum. Um það er ekki deilt. En á sama tíma talaði hann um að það væri ekki gott út af vímuefnavandanum. Þetta snýst að vísu ekkert um það. Menn geta haft allar skoðanir á því hversu margar áfengisútsölur eiga að vera en Alþingi samþykkti að það væri að stórum hluta í ákvörðun hverrar sveitarstjórnar fyrir sig og það vald er ansi nálægt fólkinu. Það sem þetta snýst einfaldlega um er þetta: Hver á að sjá um þessa verslun? Hver á að sjá um þessa þjónustu? Það hafa engin rök komið fram fyrir því að það þurfi að vera ríkisfyrirtæki. Menn geta haft þá skoðun að hafa eigi styttri opnunartíma eða færri útibú. Það getur vel verið að eitthvað sé til í þeim viðhorfum. Menn gætu líka haft þá skoðun að lengja eigi opnunartímann og auka þjónustuna o.s.frv. En tillagan gengur einfaldlega út á það að hætta ríkisrekstri í smásölu. Það kemur vímuefnavandanum ekkert við hvort það er ríkisstarfsmaður sem afgreiðir flöskuna yfir borðið eða hvort það er einkaaðili, enda benti hv. þm. réttilega á að búið væri, eins og fram hefur komið, að semja við ÁTVR við fullt af einkaaðilum og til hvers er þá ÁTVR?