Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:23:29 (702)

1998-10-22 19:23:29# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., Flm. GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:23]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson vísar iðulega í tregðu ÁTVR. Hann er hættur að tala um að ekki sé gott að fjölga útsölustöðum heldur er málið núna að ÁTVR verði að ganga í það og hafi til þess vald. Um það er ekki deilt. Það sem vantar hins vegar eru rökin hjá hv. þm. fyrir því af hverju í ósköpunum ríkisfyrirtæki eigi að standa í smásöluverslun af þessu tagi. Hann verður líka að vera sjálfum sér samkvæmur hvað þetta varðar því ef hann vill fjölga útsölustöðum, sem hann augljóslega vill og skammar okkur sjálfstæðismenn einhverra hluta vegna fyrir að vilja það ekki, þá verður hann líka að útskýra það fyrir okkur hvort ÁTVR sé að gera stórhættulega hluti með því að láta einkaaðila sjá um þessa smásölu því það er einmitt það sem er að gerast. Og það sem sýnir best hversu óþörf stofnunin er er að hún telur að besta og hagkvæmasta leiðin til að fjölga útsölustöðum sé að semja við einkaaðila eins og hv. þm. nefndi áðan og færi vel saman við ýmsa aðra verslun út um byggð. Um það snýst málið.

Hvað sjónarmið Sjálfstfl. varðar eða þingflokks sjálfstæðismanna, þá hefði ég náttúrlega ekki getað lagt fram þetta mál ef það hefði verið í andstöðu við þingflokkinn og ég fékk að sjálfsögðu heimild til þess en væntanlega munu félagar mínir í flokknum ræða þetta einhvern tímann seinna. En aðalatriðið er þetta: Það vantar rök hjá hv. þm. af hverju ríkið eigi að standa í þessari verslun og væri ágætt ef hann mundi upplýsa það hvort hann teldi þetta ekki hættulega stefnu. Að vísu er hann búinn að tala svolítið í hringi hvað það varðar hvort það sé gott eða slæmt að ÁTVR sé að semja við þessa einkaaðila víðs vegar um landið.