Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:27:32 (704)

1998-10-22 19:27:32# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir það jafnan betur og til fararheilla að menn hafi álit á sjálfum sér. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur álit á sjálfum sér og ég er viss um að það verður honum gott veganesti inn í framtíðina. Álit hans á sjálfum sér birtist m.a. í því að hann hefur upplýst þingheim um að hann er svalur gæi. Hann þorir að leggja fram frv. eins og það sem hann hefur gert hér og hann þorir að gera það af því að hann er ungur og kjarkaður en hann er samt ekki nógu svalur til að þora að gera það af eigin dáðum heldur verður hann áður að fá samþykki hjá stóra pabba, þ.e. þingflokki Sjálfstfl. Það má þess vegna, herra forseti, deila um hversu svalur hv. þm. er þegar hann er skorinn til hjartans og nýrnanna.

Hv. þm. gat þess líka að jafnan þegar vindar frelsisins hefðu svipst hér um sali og héðan út um landið allt hafi það aðallega verið þegar kreppa hafi verið í landinu eða þegar komið hafi erlendar tilskipanir, sem sagt af völdum náttúruafla. En nú er þriðja náttúruaflið komið í þessa sali og það er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem er svalur gæi og þorir auðvitað.

Herra forseti. Ég held að það sem hv. þm. er að leggja til sé allrar athygli vert og ég skal tala við hann í fullri hreinskilni um afstöðu mína. Ég var lengi þeirrar skoðunar að það sem hv. þm. er að leggja til væri hið rétta. Ég taldi að það væri í anda þessa frjálslynda samfélags sem við búum við að sú meginregla væri í gildi höfð að menn fengju að taka ákvarðanir sjálfir fyrir sig sjálfa. Ég er þeirrar skoðunar að fullveðja einstaklingar eigi í sem ríkustum mæli að fá að taka ákvarðanir sem varða þeirra eigin afdrif og heill.

Í þessu tilviki snýst ákvörðunin um þetta: Á ég að fá að kaupa áfengi þar sem ég vil? Svarið miðað við það sem ég er búinn að segja ætti að vera játandi. Ég var þeirrar skoðunar að svo ætti að vera. Ég held hins vegar eins og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sagði áðan að það séu aðrir hlutir sem þurfi að velta upp líka. Þó að ég geti ekki nefnt tölur um það, þá hefur því verið haldið fram fullum fetum að rýmra aðgengi að áfengi auki neyslu þess og miðað við það sem ég sagði áðan ætti mér auðvitað að standa á sama.

En það eru aðrir hlutir sem ég velti fyrir mér. Ég hef séð það svart á hvítu í rannsóknum sem hafa verið gerðar við Háskóla Íslands að því fyrr sem ungt fólk fer að neyta áfengis og reyndar tóbaks líka, þeim mun meiri líkur eru á að það leiðist út í einhvers konar vímuefnaneyslu. Þetta skiptir máli fyrir mig og áður en ég get tekið afstöðu með frv. eins og þessu, þá þarf hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að sýna mér fram á það svart á hvítu að þessi tilhögun mundi ekki verða til þess að auka líkur á að aðrir, einkum ungt fólk, leiddist út í neyslu annarra vímuefna. Ef svarið við því fæli í sér að svo væri, þá mundi ég ekki fylgja þessu. En ég gæti alveg hugsað mér að fylgja þessu ef hitt lægi fyrir að svo væri ekki.

Ég held reyndar, herra forseti, að menn þurfi að gera sér skýra grein fyrir af hverju þeir eru að leggja fram frv. eins og þetta. Hv. þm. var með ýmis rök fyrir máli sínu. Hann taldi m.a. upp að það fyrirkomulag sem núna væri, þar sem einstakir aðilar hafa innflutningsleyfi en verða síðan að selja í gegnum ríkiseinokun, gæti boðið upp á mismunun. Það er rétt hjá honum. Sú hætta er ekki fyrir hendi vegna þess að hv. þm. tók sjálfur fram að hann vissi ekki dæmi þess.

Hv. þm. sagði líka að með þessu mundi ríkið fá tekjur fyrir eignasölu sem næmi 870 millj. Það eru í sjálfu sér rök. Það er sjálfsagt að færa slík rök. En ég held að hv. þm. eigi að koma til dyranna eins og hann er klæddur og leggja þetta mál fyrir á þeim grunni sem það er raunverulega flutt. Það er af hvötum þingmannsins til að auka frelsi. Hv. þm. tilheyrir þeim armi Sjálfstfl. sem hefur gert frjálshyggjuna að sínu guðspjalli. Það er ekkert við það að athuga í sjálfu sér. Það er stjórnmálaskoðun sem mér er ógeðfelld. En hv. þm. hefur allt aðra skoðun og hann hefur rétt til þess.

Það þarf líka að skoða þetta mál og þennan tillöguflutning í samhengi við þá umræðu sem hefur verið síðustu vikur og missiri innan þess hluta Sjálfstfl. sem hann tilheyrir, sem er Samband ungra sjálfstæðismanna. Þar hafa menn vitaskuld aftur og aftur verið að reifa tillöguflutning af þessu tagi og það er allt í lagi að menn geri það. Menn hafa líka gengið skrefi framar í frelsinu. Þeir hafa sagt sem svo: Hvers vegna á að meina mönnum að geta keypt áfengi í hvaða smásöluverslun sem er? Og þeir hafa sagt annað, stór minni hluti innan Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur sagt: Hvers vegna ekki að lögleiða fíkniefni sem núna eru ólögleg, t.d. hass og kannabisefni? Það er rétt, herra forseti, að skoða þennan tillöguflutning í samhengi við það vegna þess að hann er sprottinn af pólitískum hvötum sem raunverulega gætu, ef ekki væri spornað við þeim, leitt til verulegra breytinga á því vímuumhverfi sem við búum við.

Nú er ég ekki að segja að þessi hv. þm. sé endilega persónulega þeirrar skoðunar en hans pólitíska bakland er í jarðvegi þar sem þessi umræða fer fram og út af fyrir sig hefði ég gaman af að heyra álit hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á því hvort lögleiða ætti t.d. einhver önnur fíkniefni en þau sem núna eru lögleg. Ég er ekki að segja að það skipti meginmáli fyrir þessa umræðu og ég ætla ekki að inna hann eftir því svari ef hann vill ekki svara því. En mér finnst hins vegar rétt að við skoðum þetta mál og þennan tillöguflutning í því samhengi sem hv. þm. er staddur í í sínu pólitíska umhverfi þegar hann kemur út fyrir þessa sali.