Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:33:48 (705)

1998-10-22 19:33:48# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., Flm. GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:33]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og sérstaklega athyglisvert fyrir nýliða að kynnast slíku. Þeir nýliðar sem hafa rómantískar hugmyndir um málefnalega umræðu innan sala Alþingis, eins og ég, verða í það minnsta fyrir hálfgerðum vonbrigðum. Það vakti mér hins vegar nokkra ánægju að hann taldi mig hafa sjálfsálit. Ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er sérfræðingur í slíku og því er ágætt að heyra það frá hinum allra besta í þeim efnum.

Varðandi útúrsnúninga um ,,svalan gæja`` og ,,að spyrja stóra bróður`` þá er það ákveðin verklagsregla í þingflokki sjálfstæðismanna sem ég kann vel að meta og mun fara eftir henni.

Síðan kom hugvekja hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um hvaða pólitíska baklandi ég væri í og hvernig það tengdist þessu máli. Ég frábið mér allt slíkt tal. Ég held að ef við færum út í þetta þá gæti ég nefnt ýmislegt sem hann hefur tengst í gegnum tíðina og sagt að afstaða hans mótist af því. Þetta snýst ekkert um það. Hér er tillaga sem liggur fyrir --- um hvað? Um að afnema einokun ríkisins á áfengi. Ekkert annað. Ef hv. þm. vill vita afstöðu mína um lögleiðingu fíkniefna, þá er ég á móti því þó að það tengist þessu máli ekki neitt. Eftir stendur að það vantar rök frá hv. þm., þeim svala gæja Össuri Skarphéðinssyni með ágætis sjálfsálit. Hver eru rökin fyrir því að viðhalda ríkisverslun með áfengi? Öllu því sem hann nefndi varðandi aðgang og annað slíkt, getum við náð fram með öðrum leiðum og ákvörðunarvaldið er hjá sveitarstjórnum eins og það er í dag. Eftirlitið og yfirumsjónin er hjá lögregluyfirvöldum og rætt er um að hafa sambærilega skipan mála og í sambandi við vínveitingahús. Ef það hefur farið fram hjá hv. þm., þá eru þau ekki ríkisrekin.