Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:36:01 (706)

1998-10-22 19:36:01# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það á máli hv. þm. að hef ég bersýnilega sært tilfinningar hans í upphafi ræðu minnar hér áðan og ég bið hann afsökunar á því, það var ekki ætlunin.

Hv. þm. getur þess að það séu ákveðnar verklagsreglur í þingflokki Sjálfstfl., og skal ég ekkert um það segja. En okkur þingmönnum ber aðeins að fylgja einni verklagsreglu. Það er stjórnarskrárbundin verklagsregla sem segir að við eigum að fylgja sannfæringu okkar. Þess vegna segi ég að hv. þm. eigi bara að gera það og ekkert endilega líta til stóra bróður, þingflokksins, í þeim efnum. Hann á bara að segja það sem honum finnst sjálfum.

Ég, herra forseti, var að reyna að gera hv. þm. grein fyrir því að við 1. umr. taki menn yfirleitt ekki endanlega afstöðu heldur reifi málin. Síðan fara þau til þingnefndar og koma síðan aftur til 2. umr. og þá koma menn með sínar mótuðu skoðanir. Ég var að segja honum hvaða forsendur ég þyrfti að hafa til þess að geta mótað mér ákveðna skoðun. Ég sagði alveg heiðarlega að ég hefði um tíma verið sömu skoðunar og birtist í þingmáli hv. þm. Ég gat þess hins vegar að vissrar breytingar gætti í samfélagsmynstrinu og birtist í því að vímuefnaneysla ungs fólks væri orðin gríðarlegt vandamál, miklu meira vandamál í dag en fyrir nokkrum missirum eða nokkrum árum og mér finnst það skipta máli.

Ég spurði, svo ég geri langt mál stutt: Getur þessi tillaga með einhverjum hætti leitt til þess að betri aðgangur að áfengi auki vímuefnaneyslu? Ég er ekki að biðja hv. þm. um að svara því hér. Það verður á verksviði þingnefndarinnar sem málið fær að kanna það. Svarið þarf hins vegar að liggja fyrir til þess að ég geti tekið afstöðu til málsins. Til þess að ég geti stutt málið þarf svarið að vera neitandi. Þetta sagðí ég hv. þm. áðan þannig að hann hefur a.m.k. vísi að því í hvaða farveg mín afstaða mun hníga. Ég þarf þessar upplýsingar til þess að geta tekið hana.