Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:40:44 (708)

1998-10-22 19:40:44# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að svarið við spurningu minni sé nei, þ.e. þetta mun ekki leiða til aukins aðgengis og því ástæðulaust að bera kvíðboga fyrir því að það leiði til aukinnar vímuefnaneyslu ungmenna.

Ég hef skilið tillögu hv. þm. þannig að hún leiddi til þess að hægt yrði að kaupa áfengi t.d. í matvöruverslunum og víðar, þetta væri svipað og í nágrannalöndum okkar. Ég hef skilið tillöguna þannig. (Gripið fram í.) En ég hef alla vega skilið það svo að frelsið fæli það í sér að útsölustaðir yrðu fleiri og til að mynda væri hægt að fara með áfengi í sölu í gegnum annars konar verslanir en nú þegar eru reknar. Ótti minn stafar af eftirfarandi:

Fyrirkomulagið sem viðhaft er um sölu á tóbaki felur í sér lagaleg fyrirmæli um að ekki megi selja fólki, innan við ákveðins aldurs tóbaksvarning. Mér er kunnugt um þrjár kannanir sem sýna að í 75% tilvika bregst þetta. Ef þetta bregst varðandi sölu á tóbaki, bregst þetta þá ekki varðandi sölu á áfengi? Þetta er eitt af því sem þarf að kanna og þetta er eitt af því sem þingnefndin þyrfti að vega og meta og mér nægja ekki orð kappsfulls flutningsmanns málsins. Það þarf einfaldlega nánari könnun á þessu. Ef könnun leiddi í ljós að breytingin mundi leiða til aukins aðgengis að áfengi, þá liggja fyrir aðrar kannanir um að það muni leiða til aukinnar vímuefnaneyslu, mundi það breyta í einhverju afstöðu hv. þm. til málsins?