Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:43:00 (709)

1998-10-22 19:43:00# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., Flm. GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:43]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég ítreka það sem hér hefur komið fram. Mér finnst það ágætlega við hæfi, þetta hefur verið langur dagur og eðlilegt að menn séu kannski ekki með athyglina við hvert einasta orð sem hér hefur fallið en ég reyndi í framsögu minni að fara nokkuð nákvæmlega í þessa hluti.

Það er alla vega búið að skýra það fyrir hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þetta snýst ekki um að færa sölu áfengis inn í almennar matvöruverslanir, það stóð aldrei til. Ef hann er mjög hræddur við þetta fyrirkomulag þá vil ég benda honum á að nú þegar er þetta fyrirkomulag við lýði. Sala áfengis hefur verið tekin upp í smásölu hjá einkaaðilum án þess að tekið hafi verið upp nýtt verklag frá því sem var hjá algerlega ríkisreknum ÁTVR-búðum. Þetta hefur verið reynt á eftirtöldum stöðum: á Blönduósi, í Borgarnesi, Hafnarfirði, Neskaupstað, Ólafsvík, Stykkishólmi, Kópavogi og á Patreksfirði. Hið sama er að gerast á Dalvík og í Mosfellsbæ. Nú er útboð á vegum Ríkiskaupa í Mosfellsbæ þar sem menn munu keppast um að fá þessa áfengissölu.

Um áfengissölu gilda sérstakar reglur eins og um margt annað, t.d. lyf, skotvopn og annað slíkt. Auðvelt væri fyrir þingmannanefndina sem fer í að skoða þetta mál að líta á þessi bæjarfélög og sjá hvernig gengur þar, hvort neyðarástand ríki á þessum stöðum eða verra ástand en þar sem búðir eru reknar einungis með starfsmönnum ÁTVR. Að sjálfsögðu er ekki svo en mér finnst alla vega gott að þessi umræða fór fram og gott að búið er að upplýsa eitthvað sem ekki var nógu skýrt. Ekkert er verra en misskilningur í þessum málum.

Ég hvet báða þessa þingmenn til að skoða málið vel. Ég er sannfærður um að þannig komist þeir að sömu niðurstöðu og ég, að það er engin ástæða fyrir hið opinbera, í þessu tilfelli ríkið, að standa í þessari smásöluverslun. Aðrir geta gert það betur og öllum til hagsbóta. Eftir sem áður getum við ákveðið áfengisstefnu. Menn geta haft alla skoðun á því. Hér er ekki um það að ræða enda gengur tillagan ekki út á breytta áfengisstefnu.

[19:45]