Breyting á stjórnsýslu lögreglustjóraembættisins

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:10:45 (716)

1998-11-02 15:10:45# 123. lþ. 17.2 fundur 78#B breyting á stjórnsýslu lögreglustjóraembættisins# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hvaða augum lítur hæstv. forsrh. áform hæstv. dómsmrh. um að nánast svipta lögreglustjórann í Reykjavík mannaforráðum og gera hann að staðgengli varalögreglustjóra, staðgengli aðstoðarmanns síns? Spurt er vegna þess að hæstv. dómsmrh. hefur verið að kynna breytingar í stjórnsýslunni sem stríða gegn landslögum. Í 6. gr. lögreglulaga frá árinu 1996 segir, með leyfi forseta:

,,Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.``

Í greinargerð með frv. er hnykkt á þessu því þar segir að áhersla sé lögð á sjálfstæði einstakra lögreglustjóra við daglega stjórn og rekstur embætta sinna og við framkvæmd lögreglustarfa í umdæmi sínu.

Mun hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin taka fram fyrir hendur á hæstv. dómsmrh. og sjá til þess að hann fari að landslögum?