Greiðslur í þróunarsjóð EES

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:22:09 (724)

1998-11-02 15:22:09# 123. lþ. 17.2 fundur 79#B greiðslur í þróunarsjóð EES# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin mun gæta að sér í þessu máli eins og öllum öðrum og ekki fara út í neitt að óathuguðu máli.

Það er hins vegar ljóst að einstök ríki hafa neitunarvald og geta komið í veg fyrir að ákveðnir textar séu afgreiddir. Í þessu tilviki gátu Spánverjar gert það. Það er ekki þar með sagt að krafa Spánar sé studd af öllum aðildarríkjunum. Við vitum að svo er ekki og við erum að vinna málstað okkar fylgi meðal Evrópuþjóðanna og ræða þetta mjög svo alvarlega mál við þjóðirnar því það getur ekki gengið að ákveðin mál séu hreinlega stoppuð út af þessari kröfu, eins og kom fram í þeim textum sem afgreiddir voru eftir fundinn í Lúxemborg. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða en ég tel að haldið hafi verið á því af fullri hörku og einurð. Í reynd vildu samstarfsþjóðir okkar, bæði Noregur og Liechtenstein, ganga lengra en við vorum tilbúnir að gera í þessu máli og við verðum að sjálfsögðu að taka jafnframt mið af því hvað þessi lönd vilja gera í málinu og halda samstöðu milli þeirra.