Kjaradeila meinatækna

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:27:42 (727)

1998-11-02 15:27:42# 123. lþ. 17.2 fundur 80#B kjaradeila meinatækna# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hæstv. ráðherra vil ég geta þess að ég vitnaði í orð lækna á Landspítalanum. Vissulega er um kjaradeilu að ræða og kjarasamninga en þessi deila er í hnút og það er hættuástand samkvæmt fagmönnum sem starfa á þessum stofnunum.

Það er líka mál manna sem vinna að þessari deilu að hún leysist ekki nema aukið fjármagn komi til. Það er vitað að Landspítalinn greiðir lægstu launin til meinatækna. Ríkisstjórnin hefur stutt það að mikil gróska hefur komið í störf sem meinatæknar geta starfað við þar sem er Íslensk erfðagreining. Það hefur verið stutt. Það hefur hækkað laun meinatækna í þjóðfélaginu. Það er ætlast til þess af almenningi að Landspítalinn veiti mjög góða þjónustu, betri en annars staðar, og þar verða menn að taka við öllum tilfellum og það er ekki boðlegt að þar séu greidd mun lægri laun en annars staðar í heilbrigðiskerfinu eða þar sem meinatæknar starfa. Landspítalinn verður að vera samkeppnisfær um menntað starfsfólk, eins og meinatækna.