Meðferð dómsskjala í barnaverndarmáli

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:31:44 (730)

1998-11-02 15:31:44# 123. lþ. 17.2 fundur 81#B meðferð dómsskjala í barnaverndarmáli# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er skaðabótamál sem höfðað var í kjölfar þess að heimilisfaðir á Íslandi var dæmdur til fangelsisvistar fyrir að misþyrma börnum sínum. Þetta skaðabótamál fór eðlilega leið innan dómskerfisins og þar voru þeir sem málið kom við, þ.e. börnin, yfirheyrð undir miklum trúnaði. Tilsjónarmenn þeirra fengu ekki að vera viðstaddir yfirheyrslurnar, svo mikill var trúnaðurinn, aðeins viðkomandi sálfræðingar og fyrir tilstilli þeirra gáfu börnin játningar og yfirlýsingar viðkomandi málinu.

Svo er dómur kveðinn upp. En í kjölfar dómsins gerist það að dómurinn er seldur út um borg og bý fyrir 2.500 kr. og þar fylgja með allar trúnaðarupplýsingarnar sem voru gefnar fyrir tilstilli sálfræðinganna inni í réttinum. Nú liggja þær því nánast fyrir hunda- og mannafótum og þeim er slegið upp í blaðinu Allt þar sem þetta er tíundað allt saman og er mjög svo persónugreinanlegt, af því okkur er orðið svo tamt að ræða um það. Þjóðerni viðkomandi manns er tiltekið en mjög fáir karlmenn af því þjóðerni á þessum aldri eru búsettir hér. Fjölskyldustaða er tiltekin, barnafjöldi, örlög móður þeirra og allt sem viðkom fjölskyldunni auk hinna leyndustu upplýsinga sem börnin höfðu gefið í réttinum.

Hvenær hætti trúnaðurinn að vera trúnaður?