Meðferð dómsskjala í barnaverndarmáli

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:35:33 (732)

1998-11-02 15:35:33# 123. lþ. 17.2 fundur 81#B meðferð dómsskjala í barnaverndarmáli# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og ég fagna því að það skuli verið að taka á þessum málum með þeim hætti sem hann lýsti. En áður en sá dómur sem hefur verið til umræðu var kveðinn upp og áður en þetta ágæta blað kom út höfum við verið aðilar að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég hefði haldið að einn og sér ætti hann að koma í veg fyrir að svona lagað gæti gerst.

Auðvitað vitum við að í íslenskum sakamálum eru dómar seldir en þurfa slíkar upplýsingar úr yfirheyrslum, eins og þarna er um að ræða, að fylgja með dómi? Ég veit um fjöldamarga sem hafa keypt þennan dóm og lesið hann, aðra en þá sem standa að umræddu tímariti. Ég held að þarna hafi orðið mikil mistök, óbætanleg, og ég vona að gerðar verði þær ráðstafanir að svona lagað komi aldrei fyrir aftur.