Jafnréttisstefna fjármálaráðuneytis og stofnana þess

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:39:19 (736)

1998-11-02 15:39:19# 123. lþ. 17.2 fundur 82#B jafnréttisstefna fjármálaráðuneytis og stofnana þess# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn segir það eitt af markmiðum sínum að vinna að jafnrétti kynjanna. M.a. var gefið út rit árið 1996 af hálfu hæstv. fyrrv. fjmrh. sem heitir Nýskipan í ríkisrekstri, jafnréttismál. Þar segir m.a. í inngangi undir yfirskriftinni ,,Úr viðjum vanans`` að í fjmrn. hafi verið skipuð sérstök nefnd til að taka jafnréttismál í ráðuneytinu og stofnunum þess til athugunar, auk þess sem sérstakt átak hafi verið gert til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ríkisins.

Á bls. 13 í sama bæklingi segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þú sem vinnuveitandi gætir jafns réttar kvenna og karla með því m.a. að:``

Síðan eru taldir upp nokkrir punktar. Einn af punktunum er sá að sjá til þess að ávallt séu viðhöfð vönduð, hlutlæg vinnubrögð við ráðningar starfsmanna, að tryggja að skýrt liggi fyrir hvaða reglur sé stuðst við þegar teknar eru ákvarðanir um laun og að reglurnar þurfi að vera almennar. Svona mætti áfram telja.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. í ljósi þess að bráðum eru liðin þrjú ár frá því að þessi hvatning til vinnuveitenda var gefin út, og spyrja hann ekki síst sem vinnuveitanda:

Hefur árangur náðst í samræmi við markmiðið frá 1996 í fjmrn. og stofnunum þess? Hefur það skilað sér í því að fleiri konur hafi verið ráðnar í stöður sem hafa losnað hjá fjmrn. og stofnunum þess? Og síðast en ekki síst: Hvað hefur verið gert í fjmrn. til að tryggja að fyrsta markmiðinu sé fullnægt, þ.e. að ávallt séu viðhöfð vönduð, hlutlæg vinnubrögð við ráðningar starfsmanna?

Hefur m.a. í þessu skyni verið bundið svo um hnútana að stöður sem losna í fjmrn. séu ávallt auglýstar? Hefur hæstv. fjmrh. þannig séð til þess að sýnt sé gott fordæmi varðandi hvatninguna sem kemur fram á bls. 13 í þessum bæklingi fjmrn.?