Nemendagarðar við Kennaraháskólann á Laugarvatni

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:50:27 (744)

1998-11-02 15:50:27# 123. lþ. 17.2 fundur 84#B nemendagarðar við Kennaraháskólann á Laugarvatni# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:50]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. félmrh.

Starfsemi Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni hefur gjörbreyst eftir að lög um Kennaraháskóla Íslands voru samþykkt á síðasta þingi. Á Laugarvatni er svokölluð íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands og því höfum við í raun fengið háskóla á Suðurland. Hér er um þriggja ára háskólanám að ræða sem lýkur með B.Ed.-gráðu og nemendur fá kennararéttindi bæði í grunn- og framhaldsskólum.

Háskóli er gjarnan þannig samfélag að þar stundar fjölskyldufólk nám. Forsvarsmenn Kennaraháskóla Íslands, þeir Þórir Ólafsson rektor í Reykjavík og dr. Erlingur Jóhannesson á Laugarvatni, hafa mikinn hug á því að reisa stúdentagarða á Laugarvatni líkt og gert hefur verið af miklum myndarskap við Samvinnuháskólann að Bifröst. Hér er um mjög brýnt mál og mikilvægt að ræða í skólastarfi á Laugarvatni. Mig langar því að spyrja hæstv. félmrh. hverjir séu möguleikar forsvarsmanna Kennaraháskóla Íslands til að byggja upp stúdentagarða á Laugarvatni. Hver er afstaða ráðherrans til þessara mála?