Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 16:11:19 (750)

1998-11-02 16:11:19# 123. lþ. 17.14 fundur 51. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., Flm. SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnskipunarlaga en þar segir, með leyfi forseta, í 1. gr.:

,,51. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Ráðherrar mega ekki eiga sæti á Alþingi. Þó eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja og svara fyrirspurnum, en gæta verða þeir þingskapa.``

Að mínu mati er um mjög brýnt mál að ræða vegna þess að í dag má segja að við búum við mikið ráðherraræði. Ráðherrarnir hafa meiri völd en eðlilegt getur talist, sérstaklega á löggjafarsamkomunni.

Menn geta spurt af hverju þetta mál sé fram komið. Eru einhver vandkvæði á því skipulagi sem við búum við í dag? Að mínu mati er það svo. Íslenskt réttarríki byggir á hugmyndum franskra umbótasinna á 18. öld um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Þessi þríþætta skipting valds er mörgum kunn af því hún er kennd í flestum skólum landsins. Hugsunin með þessari þrískiptingu valdsins er sú að hver valdhafi um sig takmarki vald hinna en hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig á þó að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskrá lýðveldisins byggi á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir því að ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn, þ.e. þeir eru í framkvæmdarvaldinu en líka í löggjafarvaldinu. Þeir sitja því báðum megin borðsins. Hér er því ekki um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að ræða, alls ekki eins mikill aðskilnaður og 2. gr. stjórnarskrárinnar gefur til kynna.

Fyrir tiltölulega stuttu var tekið á svipuðu máli í þinginu þar sem um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds var að ræða hjá sýslumönnum. þá var dómsvaldið fært frá þeim til þess að hafa ekki dómsvald og framkvæmdarvald í sama potti.

Í nágrannalöndum okkar er þessu ekki eins farið og hér. Bæði í Noregi og Svíþjóð verða þingmenn að víkja af þingi á meðan þeir gegna ráðherradómi. Þar er skýr aðskilnaður milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þetta kemur skýrt fram bæði í 9. gr. sænsku stjórnarskrárinnar og 74. gr. norsku stjórnarskrárinnar. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar ég las Dagblaðið í morgun þar sem viðtal er við Bjørn Erik Rasch nokkurn, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Ósló, en þar segir hann að þessi regla sé einungis viðhöfð í Noregi en það er ekki rétt því að þetta er líka svona í Svíþjóð. Reyndar hefur umræðan um að aðskilja þarna á milli verið talsverð í Danmörku og þar hefur umræðan líka snúist að einhverju leyti um þetta mál vegna þess að þar eru litlir flokkar sem eiga ráðherra í ríkisstjórnum og þeir ná ekki að anna bæði því að sinna ráðherraembættum og störfum þingmanna í litlum flokkum.

Í Dagblaðinu í morgun kom einnig fram að sú hugmynd að ráðherrar eigi ekki að eiga sæti á Alþingi með atkvæðisrétti meðan þeir sinna ráðherraembætti styrki völd flokka og embættismanna. Þetta er alrangt. Það er ekkert sem bendir til þess. Í Svíþjóð þar sem þessi regla hefur verið viðhöfð í áratugi hefur þróunin alls ekki ekki verið sú að fleiri hafi komið utan frá sem ráðherrar, embættismenn né neitt slíkt þannig að þetta er ekki rétt. Það styrkir ekki völd flokkanna að mínu mati að viðhafa aðskilnað milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Síður en svo. Hér má einmitt segja að vegna þess hve ráðherraræðið er sterkt stjórna forsvarsmenn flokkanna, sem eru yfirleitt ráðherrarnir, óeðlilega miklu í þingflokkum sínum.

[16:15]

Það er kannski nærtækt að taka dæmi af síðasta kjörtímabili þegar Alþfl. var í stjórn með Sjálfstfl. Þá hafði Alþfl. tíu þingmenn og af þessum tíu þingmönnum voru fimm ráðherrar. Þegar menn voru búnir að komast að einhverri niðurstöðu í ríkisstjórn voru því hæg heimatökin að fara með það í þingflokkana sína og valta yfir, má segja, sinn þingflokk. Þingflokkurinn gat ekki stöðvað nein mál vegna þess að ráðherrarnir fimm voru þarna á staðnum og komu málum ríkisstjórnarinnar í gegn. Síðan sátu ráðherrarnir hér að sjálfsögðu í þingsal og greiddu atkvæði áfram með ríkisstjórnarfrumvörpunum. Þetta er mjög nærtækt dæmi og sýnir hvað ráðherraræðið hér er óeðlilega sterkt.

Sagt er að stærsti hluti hinnar eiginlegu vinnu í þinginu fari fram í þingnefndum og það er rétt. Vinnan þar er mjög mikil og vönduð. Sú hefð hefur skapast að ráðherrar eiga ekki sæti í nefndum þingsins, enda geta þeir það varla vegna vinnuálags. Núverandi fyrirkomulag leiðir því til þess að um sjötti hluti þingheims er ekki nema að litlu leyti virkur í þingstarfinu. Þetta eru einnig rök fyrir því að ráðherrarnir eigi að víkja af þinginu. Það er t.d. mjög slæmt fyrir okkur þingmenn, sem ,,missum`` okkar þingmenn í ráðherrastóla að þá þurfum við sem eftir erum að sinna öllum þingnefndum sem gefast. Í dag eru þingmenn á Alþingi í þremur til fjórum nefndum hver. Þetta er að mínu mati afar mikið vinnuálag og ég hef stundum efast um að þetta sé eðlilegt. Í þjóðþingum í kringum okkur, t.d. í Noregi, eru þingmenn yfirleitt bara í einni þingnefnd og geta sinnt henni almennilega, á meðan við erum að hlaupa á milli margra nefnda. Þetta er erfitt fyrir litla flokka sem þurfa að sinna mörgum nefndum og þetta er líka erfitt fyrir þá flokka þar sem þingmenn fara í ráðherrastóla og þingmennirnir sem eftir eru þurfa að sinna öllu.

Hvað varðar framkvæmdina á frv. þá er gert ráð fyrir því að sú leið verði farin að um leið og forseti hefur skipað alþingismann ráðherra taki varamaður sæti ráðherrans á þingi. Hlutaðeigandi ráðherra á hins vegar rétt á þingsæti sínu aftur jafnskjótt og hann lætur af ráðherradómi ef þing hefur ekki verið rofið og boðað til nýrra kosninga. Með þessu móti munu allir sem sæti eiga á Alþingi hverju sinni geta sinnt þeim skyldum sem á þeim hvíla í því starfi. Hins vegar er áfram gert ráð fyrir að ráðherrar geti tekið þátt í umræðum á þingi og svarað fyrirspurnum samkvæmt nánari reglum sem settar yrðu þar um í þingsköpum.

Sumir gætu spurt: Af hverju geta ráðherrar ekki gert þetta bara strax í dag? Það má segja að þeir geti það að vissu leyti en ég efast um að þeir geri það nema það sama gangi yfir alla. Núna gæti ráðherra sagt af sér þingmennsku og látið varamann taka sæti sitt í staðinn. En það er mjög ólíklegt að ráðherra mundi gera slíkt nú að öllu óbreyttu, því ef hann mundi missa ráðherraembættið aftur þá ætti hann ekki afturkvæmt í þingmennskuna fyrr en að afloknum kosningum, þ.e. ef hann næði kjöri, þannig að við núverandi aðstæður hafa ráðherrar ekki um góða kosti að velja í þessu sambandi.

Mig langar að draga fram aðra hlið á þessu máli. Þegar hugað er að afleiðingum þessa frv. má sjá í hendi sér að ef ráðherrarnir tíu færu af þingi og tækju varamenn sína inn í staðinn þá mundi störfum í okkar stjórnsýslu fjölga um tíu og kæmu þá inn eiginlega tíu menn til viðbótar. Af þessu hlytist talsverður aukakostnaður. Því legg ég til í greinargerð að það verði skoðað hvort rétt sé að fækka þingmönnum á móti til þess að ekki verði aukakostnaður af frv. Hins vegar set ég það ekki inn í sjálft frv. vegna þess að ég hef vissar efasemdir um að rétt sé að fækka þingmönnum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að skoða það mjög alvarlega. En eftir að hafa starfað í þinginu í þessi ár sem nú eru liðin síðan ég var kosin, þá sé ég hvað þetta starf er erilsamt og er ekki viss um að það sé til bóta að fækka þingmönnum. Við erum í miklu erlendu samstarfi sem ég tel mjög æskilegt að við sinnum vel sem lítil þjóð og þess vegna er þetta sett inn í greinargerðina með þessum hætti.

Ég vil að lokum, herra forseti, undirstrika það að ég tel mjög brýnt að við minnkum ráðherraræðið á íslensku löggjafarsamkomunni, skiljum algjörlega á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, tökum atkvæðisréttinn af ráðherrunum, bæði í þinginu sjálfu og þar af leiðandi líka í þingflokkunum þannig að hlutverk þingsins verði sterkara en það er í dag.

Ég legg til að þessu máli verði vísað í sérnefnd um stjórnarskrármál þegar hún verður kosin. Sú nefnd mun, að mér skilst, taka til úrvinnslu breytingar á kosningalöggjöfinni, svo sem kjördæmaskiptingu. Núna er lag vegna þess að við erum að öllum líkindum að fara að opna stjórnarskrána vegna breytinga á kosningalögunum þannig að nú er lag að skoða þetta mál í leiðinni, gera eins og nágrannar okkar á Norðurlöndum og skilja algjörlega á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og minnka ráðherraræðið á Íslandi.