Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 16:22:28 (751)

1998-11-02 16:22:28# 123. lþ. 17.14 fundur 51. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hef margoft bent á að þau frumvörp sem Alþingi afgreiðir eru nánast öll samin utan Alþingis. Og ég hef bent á að þau komi frá hagsmunaaðilum, frá ríkisvaldinu, frá Evrópusambandinu, en ekki frá þingmönnum sjálfum, sem þó mynda hér löggjafarsamkundu.

Þetta held ég að sé í og með vegna þess að ráðherrarnir eru í því tvíþætta hlutverki að vera bæði þátttakendur í löggjafarsamkundunni og fulltrúar framkvæmdarvaldsins.

Ég hef bent á að Alþingi stendur í heilmiklum framkvæmdum líka, vegna þess að í fjárlagafrv. er talað um beinar framkvæmdir. Þar er talað um að þýða bók eða stunda rannsóknir eða byggja upp torfbæ eða ráða fólk. Þetta er hlutverk framkvæmdarvaldsins en ekki löggjafarvaldsins að mínu mati. Mér finnst að í staðinn eigi Alþingi að stunda lagasetningu einvörðungu.

Núverandi kerfi hefur í för með sér að enginn ber ábyrgð. Framkvæmdarvaldið ber ekki ábyrgð á framkvæmdum sem Alþingi hefur ákveðið. Stundum heyrir maður líka að löggjafarvaldið, þ.e. hið háa Alþingi, beri ekki ábyrgð á frumvörpum sem koma frá framkvæmdarvaldinu. Og ef einhver galli verður í frumvarpsgerð þá er oft vísað á þann sem samdi frumvarpið. Ég held því að það sé mjög brýnt að við förum að átta okkur á þessari þrígreiningu valdsins eins og hv. flm. benti á að væri mjög nauðsynlegt að taka á eins og við höfum verið að taka á gagnvart dómsvaldinu.

Herra forseti. Flm. fór ágætilega í gegnum rökin fyrir þessu frv. Ég get tekið undir allt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði. Þó verð ég að segja að ég er ákveðnari varðandi fækkun þingmanna. Ég vil alfarið að þingmönnum verði fækkað um tíu. Sem betur fer búum við við þá stöðu hér á Íslandi að þessi þingsalur sem Alþingi heldur fundi sína í er svo lítill að ekki er pláss fyrir fleiri þingmenn og ekki fleiri ráðherra þannig að það takmarkar verðbólgu á því sviði að fjölga þingmönnum.

Ég sé ekki hvar hægt er að bæta tíu mönnum í þennan sal --- og alveg ástæðulaust --- því að ég mundi vilja að tækifærið yrði notað núna og þingmönnum fækkað um tíu, og þá í tengslum við kjördæmamálið sem við erum að ræða jafnframt. Það mundi líka kom í veg fyrir þann kostnaðarauka sem hv. flm. gat um áðan.

Varðandi það aðhald og ábyrgð sem menn bera þá fylgist það að að ef menn hafa vald þá bera þeir líka ábyrgð. Í þessari þrígreiningu valdsins, þ.e. ef framkvæmdarvaldið á að sjá um alla framkvæmd sjálft og hv. Alþingi að sjá um allt löggjafarstarf sjálft fælist um leið miklu meiri ábyrgð framkvæmdarvaldsins og sömuleiðis löggjafarsamkundunnar. Því held ég að mjög brýnt sé að taka á þessu máli.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiru við ágætan rökstuðning flm. að bæta en styð þetta frv. eindregið.