Vegagerð í afskekktum landshlutum

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 16:59:44 (754)

1998-11-02 16:59:44# 123. lþ. 17.16 fundur 73. mál: #A vegagerð í afskekktum landshlutum# þál., LRM
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[16:59]

Lilja Rafney Magnúsdóttir:

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að átak verði gert í vegagerð í afskekktum landshlutum og þeim landshlutum sem eru ekki tengdir þjóðvegakerfinu með bundnu slitlagi. Eins og fram kom hjá flm. hafa landflutningar aukist gífurlega undanfarin ár í kjölfar þess að sjóflutningar drógust saman og miklir þungaflutningar fara um vegakerfi landsins. Atvinnulífið víða í sjávarútvegi byggist mikið á því að koma afurðum sem fyrst í útflutning og mikill útflutningur á ferskum flökum byggir á því að geta komið vörunni sem fyrst í flug til Keflavíkur. Þeir landshlutar sem eru aftarlega í lagningu bundins slitlags eru Vestfirðir, Norðurland eystra og Austfirðir sérstaklega, og það eru þessir landshlutar sem byggja mikið á því að útflutningur ferskra sjávarafurða sé í góðu lagi og sjávarútvegurinn byggir á því að þetta sé í góðu horfi.

[17:00]

Í þessum landshlutum hefur fólksflóttinn líka orðið hvað mestur. Það er bein afleiðing þess að vegakerfið hefur dregist gífurlega aftur úr miðað við aðra landshluta og þéttbýlissvæðið á suðvesturhorninu. Við vitum að það er stór þáttur í búsetuþróun á landinu að hafa sem best vegakerfi. Landsmenn gera þá kröfu að vegakerfið sé það gott að það þjóni þeim þáttum sem fólk gerir kröfur um nú til dags varðandi heilbrigðisþjónustu, menntamál, verslun og aðra samneyslu og ég tala nú ekki um ferðaþjónustuna sem er alltaf að verða stærri og stærri þáttur víða úti um land. Í dag er vegakerfið sums staðar í dreifbýli svo slæmt að í raun er verið að þvinga fólk til búferlaflutninga í skjóli þess að fólk geri ekki ráð fyrir að úrbætur verði neitt á næstunni. En ef gert yrði átak í vegamálum til ákveðins tíma þá mundi fólk sjá að verið er að vinna í þessum málum og það mundi þreyja þorrann einhverja stund lengur.

Ég vil hvetja hv. Alþingi til að gera átak svo landið allt verði í raun tengt þjóðvegakerfinu. Það yrði byggðastefna í raun sem mundi skila sér. En það má ekki bíða of lengi.