Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:03:20 (755)

1998-11-02 17:03:20# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:03]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að rita sögu landnáms og búsetu Íslendinga á Grænlandi og landafunda í Vesturheimi. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Árni Johnsen, Guðný Guðbjörnsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Össur Skarphéðinsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem ráði sérfræðinga til að annast ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi, búsetu þeirra þar og hinna merku landafunda í Vesturheimi. Stefnt skal að því að sagan komi út um aldamótin og tengist hátíðahöldum í tilefni þeirra og afmælis landafunda Íslendinga í Ameríku.

Nefndin hafi heimild til að ráða sér starfsmenn til gagnasöfnunar og söguritunarinnar. Nefndin hafi allt að 15 milljónir króna til ráðstöfunar í þessu skyni á árinu 1999 og síðan fjárveitingar samkvæmt fjárlögum eftir því sem þarf til að ljúka verkefninu.``

Hér, herra forseti, er sömuleiðis um að ræða endurflutning á þáltill. sem lögð var fram undir lok síðasta þings en náði þá ekki afgreiðslu eða varð eigi útrædd. Tillagan er því endurflutt ásamt greinargerð.

Það hefur, herra forseti, ekki verið gerð nein alvarleg tilraun til að skrifa þessa sögu með heildstæðum hætti og aðgengilegum fyrir almenning. Er hún þó stórmerk, bæði landnám Íslendinga á Grænlandi á söguöld og búseta þeirra þar, svo ekki sé nú talað um hina merku landafundi í Norður-Ameríku. Nú vantar ekki að margvíslegar heimildir er að finna um þetta mál, bæði skriflegar og í formi fornminja, og liggur ágæt skráning fyrir á þeim heimildum að miklu leyti. Þar vísa ég m.a. til hins merka rits eða samantektar dr. Ólafs Halldórssonar sem birtist í bókinni Grænland í miðaldaheimildum. Einnig má nefna rit Björns Þorsteinssonar sagnfræðings og nýlegt rit Helga Guðmundssonar prófessors. Þá er ýmsar heimildir að hafa um þetta mál bæði í grænlenskum og dönskum bókum og ritum, en þessari sögu hefur verið sýndur þó nokkur sómi þar.

Ég tel, herra forseti, að það vanti verulega á að við höfum sýnt þessum merka hluta sögu okkar eða sögu sem okkur tengist næga ræktarsemi. Þessum kafla í Íslandssögunni er ekki mikill gaumur gefinn í kennslubókum t.d. og fleira mætti nefna því til rökstuðnings.

Það varð nokkur vakning meðal Íslendinga í tengslum við hátíðahöld í tilefni af því að þúsund ár voru liðin frá komu Eiríks rauða til Grænlands á sínum tíma. Þá skiptust Íslendingar og Grænlendingar á heimsóknum og talsvert var um þetta fjallað í fjölmiðlum. En nú eru aftur fram undan tímamót sem gera það að verkum að tilefni er til að varpa ljósi á þessa sögu á nýjan leik.

Hvað varðar heimildir má fyrst og fremst nefna Íslendingasögurnar, Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða. Einnig liggja allmiklar upplýsingar fyrir í bréfa- og skjalasöfnum. Og síðast en ekki síst hafa fornleifarannsóknir og gætu áframhaldandi fornleifarannsóknir varpað miklu ljósi á söguna, ekki síst þann þátt sem snýr að landnáminu og búsetunni sjálfri, lífi og störfum Íslendinganna á Grænlandi og samskiptum Grænlands og grænlenskra byggða á þessum tíma við önnur lönd. Margt bendir til þess að verslun og þjónusta við byggðina á Grænlandi hafi skipt meira máli á Íslandi á söguöld heldur en áður hefur verið talið og útflutningsvarningur og verslunarvara, verðmæt vara eins og loðskinn og bein, hafi verið umtalsverður búhnykkur fyrir þá Íslendinga sem höndluðu með þessar vörur eða voru milliliðir í viðskiptum með þau.

Búsetan sjálf sem varði þó í um hálft árþúsund, herra forseti, hefur ekki fengið mikla athygli. En nú er ljóst að allt frá landnámi Eiríks og fram yfir aldamótin 1400 stóð búseta búseta norrænna manna, a.m.k. í Eystribyggð, með allmiklum blóma á Grænlandi. Það eru fyrst og fremst endalok þeirrar búsetu og dulúðin sem hún er umofin sem hafa verið viðfangsefni manna og tilefni vangaveltna mikilla. Og þó að það sé áhugavert viðfangsefni í sjálfu sér, sem nútímanáttúrufræðirannsóknir m.a. kunna að varpa ljósi á og skýra, hvers vegna búseta norrænna manna á Grænlandi leið undir lok á fimmtándu öld, þá hlýtur fyrir okkur að vera ekki síður áhugavert að fræðast um það hvernig mannlífinu var háttað á þessum tíma og hvernig menn komust af.

Það má spyrja hver sé tilgangur með söguritun af þessu tagi annar en þá hreinlega faglegs eða fræðilegs eðlis af því menn hafi gaman af sögunni. En hefur það eitthvert hagnýtt gildi til viðbótar að skrá slíka sögu? Því svara ég hiklaust játandi. Gildi þess að sýna sögunni ræktarsemi er mjög margvíslegt og í þessu tilviki getur það einnig haft umtalsvert hagnýtt gildi. Þar má nefna t.d. það að útbúa aðgengilegt kennsluefni fyrir skóla og fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu til almennings. Nefna má gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis sem þetta spennandi tímabil er auðvitað upplagt fyrir. Það má nefna efni til landkynningar. Þetta stórmerka landnám og siglingaafrekin sem voru forsenda þess eru auðvitað góð landkynning. Og það má nefna hagnýtingu í ferðaþjónustu og fleira og fleira.

Síðast en ekki síst og langmikilverðast tel ég þó að við sjálf, okkar sjálfra vegna, sýnum sögunni ræktarsemi og gerum þessum merka kafla skil í okkar sögu.

Ég held, herra forseti, að ekki sé ástæða til að fara út í þras um það hér hvort norrænir menn á Grænlandi voru Íslendingar eða Grænlendingar eða jafnvel Norðmenn. Þeir voru a.m.k. í byrjun Íslendingar þegar þeir fluttust þangað og arfleifðin er þessum þjóðum eða löndum, skulum við segja, sameiginleg. Ég held að ástæða sé til þess að minna á að Grænlendingar eða Ínúítar sem þar búa sýna þessum hluta sögu sinnar umtalsverða ræktarsemi og það jafnvel í vaxandi mæli, samanber t.d. áform um að byggja nú upp --- áform sem eru að verða að staðreynd --- bæ Eiríks rauða í Brattahlíð og einnig Þjóðhildarkirkju, fyrstu kristnu kirkjuna í Norður-Ameríku. Þeim framkvæmum er áætlað að ljúki í kringum aldamótin eða árþúsunda- og landnámsafmælið og er það vel.

Einnig hafa talsverðar fornleifarannsóknir verið í gangi á Grænlandi og söfn í Grænlandi sýna þessum hluta búsetu eða sögu landsins umtalsverða ræktarsemi eins og þeir geta borið vitni um sem hafa heimsótt grænlensk söfn. Þannig mætti áfram telja. Ég hygg að það halli miklu frekar á okkur Íslendinga að gera þessu sambærileg skil.

Herra forseti. Siglingaafrek kappanna Leifs heppna Eiríkssonar sem síðar var nefndur svo, Þorfinns karlefnis, Guðríðar Þorbjarnardóttur og fleiri yrðu að sjálfsögðu vænn kafli í þessari merku sögu landnáms og siglinga í vesturátt frá Íslandi. Það sýnir sig um þessar mundir að ekki er vanþörf á að við Íslendingar höldum á okkar rétti í þessu efni. Það eru gerðar ýmsar tilraunir til að umskrifa söguna þrátt fyrir óhrekjandi staðreyndir sem fyrir liggja um landafundina og jafnvel háskólaprófessorar vestan hafs skrifa þvælugreinar í blöð um Kristófer Kólumbus sem fyrstur hafi hvítra manna litið Ameríku augum (Gripið fram í.) þannig að sendiherra vor í Washington stendur í ströngu við að reyna að hrekja þessa vitleysu og er gott að eiga þar vaskan mann að til að gæta þjóðarsómans.

Sömuleiðis liggur fyrir að Norðmenn eru hér með yfirgang og frekju eins og því miður í fleiri tilvikum og hyggjast reka mikinn áróður fyrir Norðmanninn Leif heppna Eiríksson í tilefni árþúsundaafmælisins. Það er dapurlegt, herra forseti, að menn skuli þurfa að standa í slíkum þrætum. Í sjálfu sér er mér það ekki mikið kappsmál að reyna að þjóðernismerkja norræna menn frá þessum tíma. Þeir litu tæpast sjálfir á sig sem íbúa eða þegna eins lands frekar en annars heldur kölluðu sig allir norræna menn og voru það auðvitað þannig að hér er um sameiginlega norræna menningararfleifð og sögu að ræða sem er sameiginleg Norðurlandaþjóðunum, a.m.k. Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, og einnig þeim hluta sem laut að búsetu eða heimsóknum til Norður-Ameríku.

Þess er rétt að geta, herra forseti, að Alþingi samþykkti síðasta haust að vísa til ríkisstjórnarinnar með jákvæðri umsögn tillögu hv. þm. Svavars Gestssonar um að minnast landafundanna sérstaklega og margvíslegar aðgerðir eru í gangi eða í undirbúningi í því skyni. Ríkisstjórn landsins hefur skipað nefnd sem er að störfum í þessu máli og hefur að ég best veit alveg þokkaleg fjárráð, a.m.k. hefur það komið til umræðu hér að talsverðum fjármunum standi til að verja í þessa landkynningu og hátíðahöld, sem út af fyrir sig er sjálfsagt mál að gera með sæmilega veglegum hætti. Hér er því verið að leggja til einungis lítils háttar viðbót eða viðauka við það sem nú þegar er á dagskrá og lýtur að því að minnast þessara tímamóta, þ.e. að setja niður nefnd og fá til þess færa menn að draga að gögn og rita og gera aðgengilega þessa sögu. Því ber að líta á þetta sem viðbót við það sem þegar er í undirbúningi eða er að koma til framkvæmda af hálfu stjórnvalda. Ég tel, herra forseti, að vel gæti komið til greina að fela svonefndri landafundanefnd --- sem ég hygg að heiti svo þó það sé nú skondið nafn í sjálfu sér --- að hafa yfirumsjón með þessu verki þannig að e.t.v. er óþarfi að grípa til þess ráðs að skipa sérstaka nefnd heldur eingöngu fela þeim aðilum sem nú þegar annast verkefni á þessu sviði að sjá einnig til þess að þessi saga verði rituð.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa um þetta fleiri orð en legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til --- trúlega var það hv. allshn. sem fékk hana til umfjöllunar á síðasta þingi nema ef vera skyldi menntmn. Auðvitað gæti utanrmn. haft á þessu spaklegt vit, ég efa það ekki. Við skulum nú ekki lenda í þrætum um það heldur legg ég til að tillögunni verði vísað til allshn. en áskil mér þó rétt til að breyta þeirri tillögu ef í ljós kæmi að eitthvað annað væri hyggilegra, herra forseti.