Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:35:07 (759)

1998-11-02 17:35:07# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:35]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður og þær undirtektir sem tillagan hefur fengið og segi við hv. 3. þm. Vestf. að það eru auðvitað gæðin en ekki magnið sem skipta sköpum eins og oftar og endranær og sá málflutningur sem hér hefur verið viðhafður og sá mannskapur sem hefur staðið fyrir honum skiptir náttúrlega ekki síður máli en þó að hér hefðu fleiri komið við sögu.

Í fyrsta lagi nefndi hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason réttilega að ákveðið frumkvæði í þessum efnum hvað varðar aukna ræktarsemi við söguna er að finna í vestnorrænu samstarfi og hjá Vestnorræna þingmannaráðinu. Það er mikið rétt og ber að þakka það sem hv. þm. gat um að á dagskrá vestnorræna samstarfsins hefur einnig þessum hlutum verið sýnd ræktarsemi og frumkvæði að uppbyggingunni í Brattahlíð er sannanlega að finna í tillöguflutningi á vettvangi Vestnorræna þingmannaráðsins. Ég hygg að það hafi verið hv. þm. Árni Johnsen sem þar reið á vaðið og einnig hafa fleiri þingmenn t.d. hv. þm. Svavar Gestsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og margir fleiri komið þar við sögu.

Ég fagna því einnig að vestnorræna samstarfið og samvinnan er að styrkjast, mér liggur við að segja á nýjan leik því að satt best að segja hygg ég að hún hafi gengið í gegnum hálfgert doðatímabil og lent í útideyfu. En nú hafa menn tekið þessu tak á nýjan leik og þar á meðal er auðvitað sú ákvörðun hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar í samstarfi við kollega sína á hinum Vestur-Norðurlöndunum að beita sér fyrir því að endurvekja reglubundna árlega fundi æðstu ráðamanna þessara þjóða sem Jonathan Motzfeldt kallar ,,de vestnordiske topmøde`` og fer auðvitað vel á því.

Ég vil taka fram að þegar ég er að leggja til söguritun þá er ég ekki endilega að tala um að birtingarform þeirrar sögu eigi að einskorðast við hefðbundna bókaútgáfu. Það getur verið með margvíslegu móti og sjálfsagt að líta til möguleika sem tækni í myndgerð og margmiðlun býður upp á ekkert síður en hinnar hefðbundnu bókaútgáfu þó að ég telji að sjálfsögðu að hún eigi að vera þar í öndvegi, enda væri annað tæplega í samræmi við hefðirnar en að þetta kæmi a.m.k. einnig út í myndarlegri bók.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom með ýmsan fróðleik svo sem hans var von og vísa á þessu sviði og ég tek undir flest af því sem hann sagði, enda er hann minn aðallærifaðir í þessum þætti málsins, þ.e. því sem lýtur að hinum óskráða hluta sögunnar varðandi viðskiptahagsmuni og mikilvægi Grænlandsverslunarinnar. Ég hygg að allt það sé rétt sem hann fór þar með. Það er ástæða til að líta á það, bæði hvaða efnahagsleg áhrif það hafði á Íslandi, hvaða áhrif það hafði að öðru leyti hvað varðaði að halda uppi samgöngum, að mynda efnahagslegan grunn eða grundvöll fyrir samskiptum sem ella hefði ekki verið til staðar, t.d. siglingum, ef ekki hefði verið flutningurinn á þeim verðmætavarningi sem þarna kom við sögu. Mig minnir þó að hv. þm. hafi gleymt að nefna ísbjarnarhúnana og skinn sem þarna voru einnig verðmæt vara. (Gripið fram í.) Já.

Þá nefndi hv. 3. þm. Vestf. Ólafur Hannibalsson það réttilega að söguskoðunin eða sú mynd sem við höfum af okkur sjálfum eða lífinu í landinu á upphafsárum Íslandsbyggðarinnar er auðvitað dálítið gloppótt. Það er enginn vafi á því. Við vitum t.d. að ýmsa kafla vantar þar af einhverjum ástæðum og menn hafa verið talsvert bundnir við að skoða þetta út frá hinum rituðu heimildum, út frá sögunum og sú mynd af hinum vígreifu köppum hefur fest í sessi en minna farið fyrir því að velta fyrir sér brauðstritinu, hinu daglega lífi, efnahagslegum grundvelli búsetunnar, hvaðan menningarstraumar bárust hingað o.s.frv. Þarna er því auðvitað að mörgu að hyggja.

Ég vil nefna eitt enn til sögunnar, herra forseti, sem mér finnst ástæða til að hafa í huga og það er að til viðbótar hefðbundnum fornleifarannsóknum sem bæði gamlar og nýjar geta náttúrlega lagt mikið af mörkum og veita t.d. upplýsingar um húsakost, búpeningshald og annað því um líkt eins og öllum má vera ljóst sem hafa labbað um rústirnar í Görðum og Brattahlíð og séð t.d. þau myndarlegu fjós sem þar voru og eru stífuð af með hvalbeinum eða básuð niður, en á síðari árum hefur líka verið að koma til sögunnar í vaxandi mæli ný grein eða hliðargrein innan fornleifafræðinnar sem er sú aðferðafræði að skoða fyrst og fremst það sem frá búsetunni kom, þ.e. þeir fornleifafræðingar sem líta ekki við bæjarrústunum sjálfum heldur fara beint í öskuhaugana og leita uppi þá staði þar sem frákastið var. Það er heil fræðigrein innan fornleifafræðinnar sem einbeitir sér eingöngu að því að skoða þennan þátt málsins. Mér er kunnugt um að bæði á Íslandi og Grænlandi hafa á seinustu árum verið talsverðar rannsóknir í gangi á þessu sviði, m.a. undir forustu bandarískra vísindamanna. Uppskeran af þeim rannsóknum er ekki nema að hluta til komin fram enn sem komið er að ég best veit. Sumt af því er jafnvel enn á úrvinnslustigi en það litla sem ég hef þó gluggað í þetta bæði í gegnum óbirt gögn hjá kunningjum og í gegnum blaðagreinar eða vísindagreinar sem birst hafa og birta afrakstur af rannsóknum á þessu sviði, þá þykist ég geta borið um það að þar er um stórmerkilega hluti að ræða sem út úr þessu koma og opna alveg nýjar víddir hvað það varðar að átta sig á t.d. lifibrauðinu, hvernig fæðan var samsett, hvað menn gerðu í tómstundum sínum o.s.frv. Og bara hlutir eins og að greina hve hátt hlutfall fiskbeina er í öskuhaugunum eða að finna taflmann segir heilmikla sögu. Að fæðan var samsett með tilteknum hætti eða menn gerðu sér dagamun eða höfðu sér það til afþreyingar að tefla manntafl. Svo getum við auðvitað velt því fyrir okkur hvað blessaðir mennirnir gerðu þegar þeir týndu þessu eina peði sem fannst síðan í öskuhaugnum á Svalbarða og þeir hafa auðvitað leitað lengi því að þeim var ónýtt taflið þegar vantaði einn mann.

Þannig eru, herra forseti, ýmsar aðferðir bæði klassískar en einnig sumpart nýlegar tiltækar til að nálgast þetta viðfangsefni. Ég tek að síðustu mjög undir það sem hv. þm. Ólafur Hannibalsson sagði að það kunni vel að vera að sá rammi sem tillagan setur þessu verkefni sé of þröngur enda ár um liðið síðan þessi hugsun var fyrst færð í letur og ég held að út af fyrir sig sé það ekki síðri kostur að nálgast þetta þannig að nota tilefnið, aldamótaafmælið eða landafundaafmælið til að hrinda verkinu af stað jafnvel þó að við sættum okkur við að það taki mun lengri tíma eða að birting og útgáfa færi fram einhvern tíma á árunum þar á eftir. Það væri auðvitað ekki síður ánægjulegt ef menn yrðu sammála um að standa virkilega myndarlega að verki í þessum efnum, leggja þessu til nokkra fjármuni og setja í þetta mannafla. Og þó svo að uppskeran yrði tekin í hús nokkrum árum síðar en tillagan gerir ráð fyrir, þá væri ekkert að því svo fremi sem verkið væri vandað.

Herra forseti. Ég þakka undirtektirnar sem tillagan hefur fengið og þær vekja mér bjartsýni um það, auk þeirrar staðreyndar að flutningsmenn úr öllum þingflokkum standa að tillögunni, að málið fái nú farsæla afgreiðslu.