Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:48:55 (762)

1998-11-02 17:48:55# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins í lok þessarar skemmtilegu umræðu þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir sínar prýðilegu ræður um þetta mál. Mér finnst þær batna eftir því sem þær verða fleiri og e.t.v. ætti hv. þm. að einbeita sér að ræðum um Grænland í framtíðinni.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Ólafs Hannibalssonar áðan þá er þetta öðrum þræði verslunarsaga og við höfum vanrækt að skrifa hana. Það væri ekki úr vegi að fá Verslunarráð Íslands til þess að kosta gerð slíkrar sögu. Þeir hafa áður gert það. Þeir kostuðu útgáfu ágætrar bókar eftir annan íslenskan sósíalista, dr. fil. Gísla Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland. Ég velti því fyrir mér í lokin, herra forseti, að ef við hv. þm. Ólafur Hannibalsson fengjum Verslunarráðið til þess að kosta slíka sögu hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri ekki reiðubúinn til að taka sér afar langt frí frá stjórnmálum til þess að annast ritunina.