Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:50:19 (763)

1998-11-02 17:50:19# 123. lþ. 17.18 fundur 75. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:50]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis. Flm. ásamt mér er hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, er sýnt í einhverju formi. Sérstaklega verði athygli beint að hvers kyns efni eða athöfnum sem líklegt má telja að börn eða unglingar verði fyrir áhrifum af.

Áætlunin miðist m.a. að því að takmarka eins og kostur er:

a. hvers kyns ofbeldi, misþyrmingar, limlestingar og manndráp í myndefni sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa og á myndböndum,

b. tölvuleiki, leiktæki og leikföng sem byggjast á ofbeldi,

c. ofbeldi á tölvunetum,

d. ofbeldi í sýndarveruleikatækjum,

e. ofbeldisefni í bókum, blöðum og tímaritum,

f. annað efni eða athafnir þar sem ofbeldi er hafið til vegs, réttlætt eða dýrkað, þar sem ástæðulausar eða tilgangslausar ofbeldisathafnir eru sýndar eða ofbeldi yfirleitt án listræns eða fræðandi gildis,

g. aðgengi barna og unglinga að ofbeldisefni.

Forsætisráðherra skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vinna með viðkomandi ráðuneytum, stofnunum og samtökum að gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir á þessu sviði, þar með talið fræðslu, sem lögð verði fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.``

Hér er um endurflutta tillögu að ræða, herra forseti, frá tveimur síðustu þingum. Tillagan gerir ráð fyrir því að eins konar framkvæmdaáætlun, eins og vel eru þekktar á mörgum öðrum sviðum um aðgerðir, verði unnin og hrint í framkvæmd. Það má taka hliðstæðu af þeirri framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum sem nú er í gildi og reyndar af framkvæmdaáætlunum á ýmsum öðrum sviðum hvað varðar forvarnastarf í ýmsum málaflokkum, hvað varðar framkvæmdamálaflokka o.s.frv.

Það er enginn vafi á því, herra forseti, að vaxandi umræða er um ofbeldi og vaxandi áhyggjur af ofbeldi í samfélaginu. Við Íslendingar förum því miður ekki frekar en aðrar vestrænar þjóðir varhluta af því. Vissulega hefur ýmislegt verið gert eða undirbúið á síðustu árum. Lagaákvæði hafa verið hert og vonir eru bundnar við starfsemi nýrra eða nýlegra stofnana og embætta eins og Barnaverndarstofu og umboðsmanns barna. Ég tek það skýrt fram að ég fagna þeirri starfsemi sem þar er unnin og þar hefur margt mjög vel verið gert og merkilegt.

En eftir stendur að engin heildstæð áætlun er í gangi í þessum efnum. Ekki er um að ræða það samstarf fræðsluyfirvalda, skóla, samtaka foreldra og allra annarra sem ég tel að þurfi til að koma ef ná á einhverjum raunverulegum árangri í þessum efnum og sporna við því hvernig ofbeldi gegnsýrir allt samfélagið og veður yfir það. Það er því óbreytt skoðun okkar flutningsmanna að brýn þörf sé fyrir aðgerðir af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir.

Hér er auðvitað um að ræða, herra forseti, mál sem kemur inn á fjölskyldulíf og heimili allra landsmanna. Það þekkja sjálfsagt allir úr sínu umhverfi að sú viðleitni að reyna að forðast að láta börn horfa upp á ljótleika og þjáningar er samgróin okkur. Úr gamla bændasamfélaginu hygg ég að flestir kannist við að reynt var að forðast að láta ung börn vera viðstödd þegar skepnur voru aflífaðar eða annað því um líkt og á margan hátt var einfaldara að koma vörnum við í því samfélagi sem þá var við lýði. Í dag er þetta allt til muna erfiðara. Ofbeldið er miklu víðar að finna og það gegnsýrir heil svið, svo sem myndefni sjónvarpsstöðva og kvikmyndahúsa. Það er í leiktækjum og tólum og það er grundvöllur afþreyingar og leikja nánast á öllum sviðum. Ofbeldi í einhverju formi er einfaldlega orðið svo hversdagslegt og útbreitt fyrirbæri og á svo fjölmörgum sviðum að það er í raun ógerningur að einangra nokkurn þjóðfélagsþegn, þar með talin börnin, frá snertingu við það.

Um allan heim hafa áhyggjur manna af þessum staðreyndum verið að aukast. Menn hafa lengi beint sjónum einkum að sjónvarpi og kvikmyndahúsum og aðgerðir einskorðast við þau. Fyrir liggja ýmsar kannanir um áhrif ofbeldis í myndefni á þá sem á það horfa og þó svo að erfiðlega hafi gengið af skiljanlegum ástæðum að sýna fram á beint orsakasamhengi eða sanna að tiltekin áhrif verði af því að menn horfi á ofbeldisefni, þá liggja fyrir miklu meira en nægjanlega vel rökstuddar vísbendingar um samhengið sem er á milli mikils áhorfs á ofbeldisefni og hættu á því að menn grípi til ofbeldis í sínu lífi.

Vandaðar kannanir sýna til dæmis svo ekki verður um villst að mikil fylgni er á milli ofbeldishegðunar og mikils áhorfs á ofbeldisefni við tilteknar félagslegar eða heimilislegar aðstæður þó að ýmislegt skipti þar auðvitað máli. Ég vísa í þessu sambandi, herra forseti, til fylgiskjals með tillögunni.

Svo hefur það gerst, herra forseti, að á síðustu árum og sumpart á allra síðustu árum hefur framboð á ofbeldisefni aukist gífurlega um leið og breyting hefur orðið á eðli þess og gerð. Þar má t.d. nefna allt það ofbeldi sem nú er viðfangsefni barna og unglinga í tölvuleikjum, í venjulegum heimilistölvum og sérstökum leikjatölvum sem tengdar eru við sjónvarp. Uppistaðan í slíkum leikjum er því miður oftast nær hreint ofbeldi. Leikirnir ganga út á að drepa eða sprengja andstæðingana. Sama gildir að miklu leyti um sýndarveruleikatæki, leiktæki í spilasölum og leikföng. Ofbeldi í einhverri mynd sem einhvers konar bardagi eða hernaður er langoftast undirstaða leikjanna.

Tæknin kemur hér einnig við sögu, herra forseti, því að möguleikar í tækniframförum til að gera þetta efni eru tröllauknir. Tölvugerð mynda, bara svo dæmi sé tekið, gjörbreytir möguleikum til þess að framleiða slíka leiki og síðast en ekki síst, herra forseti, er enginn vafi á því að hér er einnig á ferðinni það sem ég kýs að kalla vítahring stigmögnunarinnar, þ.e. að rétt eins og um annað hliðstætt efni virðist það lögmál gilda að næsta mynd eða næsti leikur verði að taka þeim fyrri fram með pínulítið meiri ljótleika, pínulítið grófari ofbeldisatriðum o.s.frv. Það þarf með öðrum orðum stærri skammt í hverri umferð, meiri grimmd, afkastameiri drápstól, miskunnarlausari ofurhetjur og meira blóð. Þannig er þetta, herra forseti.

Þó hér sé ekki ætlunin að draga upp einhverja allsherjarhryllingsmynd af ástandinu þá gæti verið fróðlegt fyrir fólk að taka dæmi af því sem venjulegt barn eða unglingur getur lent í eða getur mætt í sínu daglega lífi í þessum efnum og í greinargerð með tillögunni á bls. 2 og 3 er eitt slíkt raunverulegt dæmi tekið. Það er frá haustinu 1996 og það styðst við staðreyndir hvað varðar þær ofbeldiskvikmyndir sem þá voru auglýstar á sjónvarpsstöðvunum. Það styðst við staðreyndir hvað varðar þá ofbeldisleiki sem þar eru nefndir til sögunnar. Það styðst við staðreyndir hvað varðar könnun á möguleikum unglinga undir aldri til að fá leigð myndbönd á myndbandsleigum með bönnuðu ofbeldisefni, könnun sem við nokkrir foreldrar gerðum og fengum börn okkar til að taka þátt í.

Það er sem sagt þannig, herra forseti, að ofbeldið gegnsýrir allt umhverfið. Það er mjög aðgengilegt fyrir börn og unglinga og það er stórfelldur misbrestur á að þó þau aldursmörk séu virt sem reynt er að setja hvað varðar aðgengi að kvikmyndahúsum, hvað varðar aðgengi að myndböndum og hvað varðar t.d. það að með eðlilegum hætti sé virtur réttur barna og unglinga inni á heimilum til þess að fá ekki fyrirvaralaust yfir sig ofbeldi í gegnum auglýsingar á hvaða tíma sólarhringsins sem er o.s.frv.

[18:00]

Herra forseti. Skoðun okkar er sú að brýn ástæða og þörf sé á því að bregðast við í þessum efnum. Menn geta auðvitað spurt sig að því hvaða möguleika Íslendingar hafi til þess að spyrna við fæti. Ekki ráðum við heimsmarkaðnum í gerð kvikmynda eða tölvuleikja. En það er ekki þar með sagt að við þurfum að fljóta meðvitundarlaus og sofandi að feigðarósi. Við getum að sjálfsögðu sett okkur reglur sjálf í eigin samfélagi og reynt að tryggja að eftir þeim reglum sé farið.

Á bls. 3 eru nefnd dæmi um hvað slík framkvæmdaáætlun um aðgerðir í þessum efnum gæti falið í sér. Í fyrsta lagi mætti t.d. setja, ef ástæða sýnist til, strangari reglur um sýningartíma efnis sem bannað er börnum. Það ætti að banna auglýsingar á efni sem ekki er leyft til sýningar fyrir alla aldurshópa nema seint á kvölddagskrá sjónvarpsstöðvanna. Að sjálfsögðu ætti einnig að banna auglýsingar á slíku efni í kvikmyndahúsunum þegar verið er að sýna myndir sem leyfðar eru til sýninga fyrir alla aldurshópa. Jafnvel gengur það svo langt að á sunnudagssýningum, sem sérstaklega eru ætlaðar yngstu aldurshópunum, er iðulega dembt yfir áhorfendur auglýsingum um ofbeldismyndir sem sama kvikmyndahús hyggst sýna fullorðnum seinna um kvöldið. Þá er væntanlega höfðað til foreldranna en ekki barnanna í þrjúbíói á sunnudögum.

Það mætti hugsa sér að aðgöngumiðar að kvikmyndum og jafnvel útleiga á myndböndum sem sýna ofbeldisefni bæru viðbótargjald, væru dýrari, og þeim fjármunum síðan varið til fræðslu og forvarnastarfs á viðkomandi sviði. Það mætti vel hugsa sér að fjármagna aðgerðirnar með slíkri gjaldtöku. Það þarf að stórefla kvikmyndaskoðun og bæta aðstöðu barnaverndaryfirvalda og löggæslu til eftirlits, sbr. 9. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum, nr. 47/1995. Framfylgja þarf ströngum reglum um að kvikmyndir séu ekki sýndar eða myndbönd leigð út eða afhent öðrum en þeim sem aldur hafa til að horfa á viðkomandi efni. Framfylgja þarf ströngum reglum um aðgang að leiktækjum sem byggjast á ofbeldisefni. Síðast en ekki síst þarf að beina fræðslustarfi að foreldrum jafnt sem börnum þar sem hvatt er til þess að virða aldursmörk, takmarka aðgang að ofbeldismyndum og öðru ofbeldisefni.

Ég vil skjóta því að, herra forseti, að ég fagna sérstaklega því átaki sem í gangi hefur verið að undanförnu, að skora á foreldra og alla aðila að virða útivistartíma með auglýsingaátaki og hvatningu. Sambærilegt átak og fræðslu þyrfti til að kynna mikilvægi þess að menn virði aldursmörk á þessu sviði.

Ég held að það sé mjög brýnt, herra forseti, að þetta mál komist formlega á dagskrá og til skoðunar hjá yfirvöldum uppeldis- og menntamála, hjá fjölmiðlum sem hér geta leikið lykilhlutverk, hjá félagsmála- og heilbrigðisyfirvöldum og annar staðar þar sem ástæða er til. Síðast en ekki síst og fyrst og fremst snýr þetta mál að almenningi í landinu, að foreldrum, uppalendum og fjölskyldunum. Þetta er mál sem við verðum að hvetja fólk til aukinnar umhugsunar um, ella sýnist mér, herra forseti, sem mér finnst ansi hart að þurfa að viðurkenna, að menn séu í raun og veru að gefast upp fyrir því að ofbeldið gegnsýri allt okkar daglega líf og fylli umhverfi okkar þannig að vart megi snúa sér við öðruvísi en að sá boðskapur sé sífellt fyrir augum eða í eyrum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. allshn.