Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 18:07:06 (765)

1998-11-02 18:07:06# 123. lþ. 17.18 fundur 75. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[18:07]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að hafa uppi miklar málalengingar á mínum fyrsta degi hér á þingi í fjarveru hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. (Gripið fram í: Ólíkt þér.) En ég get ekki orða bundist í sambandi við þessa miklu ræðu. Ég efa ekki góðan vilja og frómar óskir flutningsmanns í þessu efni en ég leyfi mér að hafa töluverðar efasemdir um hvað sé beinlínis hægt að gera á vegum ríkisvaldsins í þessum efnum.

Þó vil ég nefna til umræðunnar samlíkingu við annað álíka þar sem ég tel vera um töluverðan tvískinnung ríkisvaldsins að ræða. Annars vegar er að hafa í sínum höndum allan innflutning og sölu á áfengi og hins vegar að halda uppi töluvert viðamiklu apparati sem heitir áfengisvarnaráð, sem hefur þann starfa að vara menn við því að drekka áfengi og hafa það um hönd.

Nú veit ég ekki hvort svona ofbeldisvarnaráð mundi hafa mikil áhrif. Mér finnst líka að það gegni svolítið öðru máli þegar menn bera sig sjálfir eftir ofbeldisefni, kaupa það og greiða fyrir með eigin peningum, eða hvort því er beinlínis neytt upp á þá, eins og þegar ríkið rekur sjónvarpsstöð og innheimtir með góðu eða illu afnotagjöld af því ofbeldisefni sem það sýnir og hér hefur verið gert að umræðuefni. Ég tek eindregið undir það að fráleitt er af ríkisvaldinu og þá af okkur þingmönnum einnig, að gefa íslenska ríkissjónvarpinu ekki fyrirmæli um að hætta flutningi ofbeldisefnis og auglýsinga á ofbeldiskvikmyndum á aðalfjölskyldutíma sjónvarpsins. Fyrir utan það veit ég ekki betur en að í viku hverri séu fleiri eða færri framhaldssjónvarpsþættir heilu veturna í gegn sem byggjast eingöngu á ofbeldi, spörkum, lamningu og lemstrun fólks sem manni virðist síðan birtast aftur hér í veruleikanum í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

Ég vil hér benda á að það væri a.m.k. nærtækt fyrir löggjafann og ríkisvaldið að gefa sínu eigin apparati fyrirmæli um að fyrir skylduáskrift að þessu sjónvarpi þurfi menn ekki að horfa upp á ofbeldi.