Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 18:10:29 (766)

1998-11-02 18:10:29# 123. lþ. 17.18 fundur 75. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[18:10]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður og undirtektir, a.m.k. að verulegu leyti, við tillöguni. Ég tel alveg hárrétt að hér er það sérstaklega viðkvæmt sem snýr að börnum. Það er staðreynd að börn eiga erfiðara með að greina mörkin milli veruleika og ímyndunar. Mörkin verða óljós. Mikið áhorf á myndefni eða langsetur framan við tölvuskjái, þar sem allt er mögulegt og raunveruleikinn hverfur inn í óraunveruleikann, gerir börnum á viðkvæmu þroskastigi enn erfiðara að átta sig á þessum mörkum þegar út í lífið er komið.

Flestir félagsfræðingar nú um stundir og þeir sem rannsaka orsakir alvarlegra ofbeldisglæpa eða athafna hjá börnum og unglingum, ég leyfi mér að segja það miðað við það sem ég hef lesið og séð, hafa í vaxandi mæli áhyggjur af því að þarna sé kannski meira orsakasamband á ferðinni heldur en menn hafa hingað til talið. Vandinn liggur í því að afar erfitt að sanna nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Jafnvel þó að framdir séu hroðalegir ofbeldisglæpir af ungum börnum, sem eru nánast nákvæm eftirlíking á öðru sem sést hefur í kvikmynd, þá er erfitt að sanna að það sé ástæðan. Því að auðvitað kemur í öllum tilvikum eitthvað fleira til. Væntanlega hefur eitthvað fleira bilað en það að viðkomandi ungmenni sá myndina, myndbandið eða hvað það nú var.

Mér finnst skipta miklu máli, herra forseti, hver viðbrögð samfélagsins verða. Ef við horfum t.d. á það sem hefur gerst bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, kannski sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem hroðalegir ofbeldisatburðir hafa orðið í hverjum skólanum á fætur öðrum, þá verður mér eiginlega enn meira um viðbrögðin en atburðina sjálfa. Viðbrögðin eru nánast eingöngu þau að loka viðkomandi ungmenni inni, dæma til þungar refsingar eða geyma handa þeim fangelsisdóma þangað til þau eru orðin nógu fullorðin til að sitja þá af sér. Að öðru leyti virðist samfélagið ekki ætla að bregðast mikið við. Í stað þess þætti mér eðlilegra að menn spyrji: Hvað er að hjá okkur þegar svona gerist? Hvað ber okkur að gera til að reyna að afstýra því að það endurtaki sig? Er nokkur leið að horfa fram hjá því að tíðni alvarlegra ofbeldisatburða, t.d. í skólum þar sem gerendurnir eru börn eða unglingar, fer vaxandi? Flestir eru sammála um að ofbeldið er alvarlegra, það er tilefnislausara og jafnvel hættulegra lífi og heilsu þeirra sem fyrir því verða en áður tíðkaðist.

Ég er einnig sammála því sem hér kom fram í máli hv. þm. áðan. Það má velta því fyrir sér hvort hlutir eins og einelti í skólum séu hér ekki í orsakasamhengi líka að einhverju leyti.

Varðandi athugasemdir hv. þm. Ólafs Hannibalssonar og efasemdir um að hér væri í sjálfu sér hægt að gera meira af ríkisins hálfu og að þetta sé tvískinnungur, svipað og að annars vegar annist ríkið um verslun með áfengi og hins vegar standi það fyrir áfengisvörnum, þá er ég nú ekki alveg sammála því sjónarmiði. Ég held ósköp einfaldlega að það sem við stöndum hér frammi fyrir sé þess eðlis að menn treysta sér ekki til að banna viðkomandi starfsemi. Samfélagið hefur ákveðið að leyfa áfengi en um leið hefur verið ákveðið að meðferð þess og meðhöndlun sé með sérstökum hætti. Með öðrum orðum erum við að tala hér um atferli eða vöru sem er á gráu svæði, á mörkum hins leyfða og hins bannaða.

[18:15]

Það er ekki langt bil í mínum huga frá áfengi yfir í kannabisefni. En samfélagið hefur ákveðið að draga mörkin þar að annað sé leyft en hitt sé bannað. Það sem er leyft er sett undir strangar reglur en hitt er bannað. Ofbeldisefni, t.d. ofbeldiskvikmyndir, eru í huga mínum að þessu leyti í náskyldum flokki og brennivínið. Ég geri ekki ráð fyrir því að neinn stuðningur yrði við það eða að meirihlutasamþykki fengist fyrir því í samfélaginu eða á Alþingi í sveitarstjórnum eða annars staðar að banna slíkar myndir með öllu. Þær grófustu eru það að vísu. Menn skulu hafa það í huga að grófasta ... (ÓHann: Á ríkið ekki að hætta að sýna þær í skylduáskrift?)

Já, það er svo alveg sérmál sem ég ætla aðeins að koma að, að svo er spurning um hlutdeild ríkisvaldsins í þessu í gegnum það að hér er ríkisútvarp. En ég held að við eigum nú að nálgast það álitamál, þá pólitísku spurningu kannski fyrst og fremst út frá öðru en því hvort sú stöð, ef hún er til staðar, geti sýnt sams konar efni og aðrar. Ég sæi kannski tæplega að við færum að leysa þetta eða taka á þessu vandamáli þannig að við bönnuðum ríkissjónvarpinu að sýna myndir bannaðar eldri en tólf ára en leyfðum Stöð 2 að gera það. Ég held að það mundi nú ekki ganga upp.

Einnig að þessu leyti held ég að ríkisvaldið verði einfaldlega að axla bara þær skyldur sínar að þetta efni er ekki bannað, þó að takmarkanir gildi um meðferð þess. En það er meira spurningin um hvernig þær takmarkanir eru og að þær séu virtar í framkvæmd. Ég tek auðvitað undir það með hv. þm. að það er til sérstakrar skammar að ríkissjónvarpið skuli ekki reyna að vanda sig við að virða t.d. lög um vernd barna og ungmenna eða lög um ákvæði samkeppnislaganna um að vernda beri börn fyrir óæskilegum áhrifum af auglýsingum sem hér eiga við. Ég er þeirrar skoðunar. Ég geri meiri kröfur til ríkissjónvarpsins í þessum efnum en annarra.

Að vísu hefur þarna náðst nokkur árangur, m.a. vegna þess að málið var tekið upp á þingi, bæði á síðasta þingi og þarsíðasta, og hæstv. dómsmrh. og fleiri blönduðu sér í málið.

Ég tek fram að í tillögunni, eins og spurt var að í máli hv. þm. Ólafs Hannibalssonar, felst ekki í mínum huga að við ætlum að fara að setja upp eitthvert ofbeldisvarnaráð. Við flutningsmenn erum fremur að hugsa um þetta sem átak, sem átaksverkefni, sem einhvers konar aðgerðaáætlun fjölþætta, sem komi víða við sögu, ekki síst fræðsluátak. Vel má hugsa sér að reyna að gera einhvern greinarmun á því hvað aðgerðirnar snertir, hvort um er að ræða það að menn hafi sjálfir frumkvæði að því að nálgast efnið eins og með því að sækja kvikmyndahús eða með því að fara og fá sér leigt myndband eða hvort við erum að tala um varnir, að menn séu ekki varnarlausir t.d. inni á heimilum sínum fyrir þessu ofbeldi. Það er einmitt vandinn sem við verðum að átta okkur á að foreldarnir og fjölskyldurnar standa frammi fyrir. Það er enginn lengur öruggur, ekki inni á heimili sínu. Um leið og heimilið er orðið tengt netinu eða þar er myndbandstæki eru í raun allar gáttir opnar. Það er ekki lengur hægt eins og áður var í einfaldara samfélagi og fyrir tíma allrar þeirrar tækni sem nú er í boði, að vernda börn og ungmenni fyrir þessu. Þar held ég að skyldur okkar séu auðvitað hvað ríkastar, að við reynum að taka á málum í þeim efnum.

Herra forseti. Ég þakka svo að öðru leyti þær umræður sem hér hafa orðið og ég bind sömuleiðis vonir við að sú tillaga, sem er nú endurflutt í annað sinn, fái góða málefnalega umfjöllun í þinginu og vonandi afgreiðslu.