Undirbúningur svara við fyrirspurnum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 13:34:20 (767)

1998-11-03 13:34:20# 123. lþ. 18.91 fundur 89#B undirbúningur svara við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[13:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna fyrirspurna sem ég lagði fram í upphafi þings á þskj. 70 og 71. Fyrirspurnirnar eru til viðskrh. um samninga við bankastjóra ríkisbankanna. Þar er spurt hvort gerðir hafi verið samningar við starfandi bankastjóra Landsbanka og Búnaðarbanka áður en þeim var breytt í hlutafélög og síðan í hverju þeir samningar séu fólgnir og hversu mikið þeir kosti bankana á ári.

Nú er liðinn næstum mánuður frá því að þessar fyrirspurnir voru lagðar fram en engin svör hafa borist. Þó eru þetta einfaldar spurningar. Í gær komst ég síðan á snoðir um að vegna þessara fyrirspurna hefðu átt sér stað bréfaskipti milli ráðherra og forseta þingsins. Ég tel eðlilegt að ég sem fyrirspyrjandi verði upplýst um um hvað þessi bréfaskipti snúast og fer fram á það, herra forseti, að fá að sjá þau bréf sem farið hafa milli þingsins og hæstv. ráðherra um þetta mál.

Í gær kom einnig fram að ráðherra hygðist senda þessi svör til Ríkisendurskoðunar áður en þau kæmu fram í þinginu. Í gær hafði ég samband við ríkisendurskoðanda og kemur þá í ljós að hann er með svörin sem hefðu átt að birtast hér. Ég spyr: Telur yfirmaður Ríkisendurskoðunar, hæstv. forseti Alþingis, þetta eðlilegt? Er það, að mati hæstv. forseta, á starfssviði Ríkisendurskoðunar að kvitta fyrir svör frá ráðherrum? Út á hvaða brautir er ríkisendurskoðandi kominn þegar svo er komið? Ljóst er að gerður var samningur við bankastjórana, það hefur komið fram. Spurningarnar um þessi starfskjör eru einfaldar. Hvers vegna berast svörin ekki? Er hér eitthvað á ferðinni sem ekki þolir dagsins ljós?

Ég vil fá svör við þessu frá hæstv. ráðherra. Herra forseti. Ég fer einnig fram á að fá þau bréf sem skrifuð voru vegna þessara fyrirspurna minna og einnig að fá svör við því hvort forseti telji vinnubrögðin varðandi þessar fyrirspurnir eðlileg.