Undirbúningur svara við fyrirspurnum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 13:40:50 (770)

1998-11-03 13:40:50# 123. lþ. 18.91 fundur 89#B undirbúningur svara við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þessi umræða um störf þingsins vera mjög sérkennileg svo ekki sé meira sagt. Ég hélt að það væru óskráðar reglur í þinginu að þegar ráðherra er krafinn svara um seinagang á svörum frá honum, þá væri hann viðstaddur. Þetta er alveg ný aðferð í umræðum hér á hv. Alþingi sem mér þykir mjög sérkennileg.

Varðandi málið almennt þá finnst mér orðið vandlifað. Viðkomandi ráðherra sat hér undir miklum árásum á sl. vori fyrir að veita ekki Alþingi rétt svör. Ég man ekki betur en hann segði að áður en hann svaraði mundi hann framvegis ráðgast við Ríkisendurskoðun um svör sín svo þetta kæmi ekki fyrir aftur. Nú situr sami ráðherra undir miklum ámælum fyrir að ráðgast við Ríkisendurskoðun um svörin. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt svo ekki sé meira sagt og málatilbúnaður allur með ólíkindum.