Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 14:04:52 (778)

1998-11-03 14:04:52# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[14:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998 sem er að finna á þskj. 178 og er 173. mál þessa þings. Með frv. er áætlað að tekjur ríkissjóðs hækki um ríflega 9 milljarða kr. frá fjárlögum þessa árs og sótt er um viðbótarfjárheimildir til útgjalda er nema 13,3 milljörðum. Þar af eru 9,2 milljarðar kr. lífeyrisskuldbindingar sem koma til greiðslu síðar.

Frv. er með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur vegna nýrrar framsetningar á fjárlögum og ríkisreikningi í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins. Þannig er fjármögnun útgjalda sýnd sérstaklega fyrir hvern fjárlagalið. 1. gr. er sýnd á rekstrargrunni og sjóðshreyfingar koma fram í 2. gr. Loks eru sérstök yfirlit m.a. um breytingar er verða á mörkuðum tekjum og gjöldum. Vegna framangreindra breytinga verður frv. nokkru meira að vöxtum en undanfarin ár en vonast er til að á móti veiti það gleggri mynd af stöðu ríkisfjármálanna.

Vert er að benda sérstaklega á að tekin er upp breytt tilhögun á flutningi umframgjalda og ónotaðra fjárveitinga á milli ára. Undanfarin ár hefur verið sótt sérstaklega um flutning fjárveitinga til næsta árs en í 37. gr. laga um fjárreiður ríkisins frá því á síðasta ári er ákvæði um að fjmrh. og hlutaðeigandi ráðherra sé heimilt að geyma ónýttar fjárveitingar í lok reikningsárs og draga skuldir frá fyrra ári frá fjárveitingum ársins. Ákvæðið er talið vera fullnægjandi heimild til að flytja fjárveitingar á milli ára og því er ekki sérstök tillaga þess efnis færð undir launa- og verðlagsmálalið fjmrn.

Sérstakt yfirlit yfir stöðu fjárheimilda er birt í frv. auk þess sem fjallað er um tilfærslurnar í greinargerð eins og venja hefur verið undanfarin ár.

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs verði ríflega 9 milljörðum kr. hærri á þessu ári en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Það sem skýrir hærri tekjur er fyrst og fremst aukin velta og meiri vöxtur kaupmáttar en forsendur fjárlaga byggðu á. Þannig er nú gert ráð fyrir að einkaneysla vaxi tvöfalt meira en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir eða um 10% á milli ára í staðinn fyrir 5%. Svipaða sögu er að segja um kaupmátt ráðstöfunartekna sem vex um 8,9% í stað 4,9% og innflutningur og fjárfesting er mun meiri af þessum sökum en fjárlög gerðu ráð fyrir. Er nú talið að skattar af tekjum einstaklinga aukist um ríflega 2 milljarða kr. frá áætlun fjárlaga og skattar á vöru og þjónustu um 6,3 milljarða. Tryggingagjöld og aðrar tekjur aukast um tæpar 700 millj. Þegar frv. var í vinnslu lá álagning á fyrirtæki ekki fyrir. Var því gert ráð fyrir óbreyttum tekjum af tekju- og eignarsköttum lögaðila. Nú er álagningu á þessa aðila lokið og bendir hún til þess að tekjur ríkissjóðs verði sem næst áætlun fjárlaga. Ef miðað er við svipað hlutfall áætlana í skattálagningunni og í fyrra, þá bendir álagningin til að tekjuskattar fyrirtækja verði e.t.v. 100--200 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum en á móti verði eignarskattar um 100 millj. kr. lægri en áætlað er í fjárlögum þessa árs.

Í frv. er sótt um 13,3 milljarða kr. viðbótarfjárheimild. Þar af nema gjaldfallnar en ógreiddar lífeyrisskuldbindingar 9,2 milljörðum kr. og mismunur á lækkun greiddra og gjaldfallinna vaxta nemur 750 millj. kr. Að frátöldum lífeyrissjóðskuldbindingum og vaxtagjöldum er sótt um 4,5 milljarða kr. hækkun útgjalda sem skiptist þannig að 2.645 millj. kr. eru rekstrargjöld, ríflega 200 millj. eru rekstrar- og neyslutilfærslur. Síðan er gerð tillaga um að stofnkostnaður hækki um rúmlega 1.630 millj. kr. og viðhald um tæplega 40 millj.

Hækkun rekstrargjalda um 2.645 millj. skýrist að stærstum hluta af hækkun launaútgjalda eða um 1 milljarð vegna kjarasamninga og úrskurðar kjaranefndar. Þá eru um 650 millj. til að gera upp uppsafnaðan rekstrarhalla heilbrigðisstofnana, 180 millj. til reksturs framhaldsskólanna og 130 millj. til reksturs löggæslustofnana.

Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 208 millj. kr. og vegur þar þyngst 150 millj. kr. greiðsla til bænda vegna hækkunar á grundvallarverði mjólkur og aukið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna hækkunar á mörkuðum útgjöldum er 146 millj. Aðrar hækkanir eru minni en á móti kemur að barnabætur lækka um 250 millj. vegna meiri hækkunar tekna en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga og bætur lífeyristrygginga verða um 200 millj. kr. innan forsendna fjárlaganna.

Stofnkostnaður hækkar samtals um 1.630 millj. frá fjárlögum og vega þar þyngst fasteignakaup og framkvæmdir í samræmi við ákvæði 7. gr. fjárlaga. Þar af eru 300 millj kr. færðar á liðinn Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum og má að stærstum hluta rekja til ráðstöfunar á söluandvirði ýmissa ríkiseigna til framkvæmda og til kaupa á húseignum umfram áætlun fjárlaga. Um 300 millj kr. eru færðar á liðinn Sendiráð almennt til kaupa á lóð undir bústað sendiherra Íslands í Berlín, til endurnýjunar á langtímaleigusamningi fyrir sendiherrabústaðinn í London og til kaupa á íbúð fyrir sendiherra Íslands í París. Til flýtiframkvæmda við hafnir er sótt um 286 millj., 170 millj. eru til aukinna jarðræktarframlaga og 119 millj. til Vegagerðarinnar í samræmi við endurskoðaða tekjustofna. Aðrar breytingar eru minni.

Eins og fram hefur komið er sérstakt yfirlit yfir ónotaðar fjárveitingar og umframgjöld árið 1997 í frv. Alls er gert ráð fyrir að fjárveiting til reksturs stofnana árið 1998 hækki um 1.688 millj. eða sem nemur þessum ónotuðu rekstrarheimildum frá árinu 1997. Á móti kemur að rekstrarfjárveitingar á yfirstandandi ári eru lækkaðar um 1.728 millj. vegna umframrekstrargjalda stofnana á sl. ári. Þá er lagt til að ónotaðar rekstrartilfærslur er nema 760 millj. kr. verði fluttar á þetta ár og loks er gert ráð fyrir að 857 millj. kr. fjárveitingar til stofnkostnaðar og viðhalds flytjist yfir á árið 1998 frá árinu 1997. Samtals er gert ráð fyrir að fluttar verði 1.575 millj. kr. nettó í fjárheimildum á milli ára.

Áætluð afkoma ríkissjóðs í ár er óbreytt frá því sem fram kemur í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 og er sú áætlun sýnd óbreytt í frv. Samkvæmt því verður handbært fé frá rekstri 9,9 milljarðar kr. og fjármunahreyfingar skila ríkissjóði tæplega 4,8 milljörðum kr. Samtals verður lánsfjárafgangur ríkissjóðs því 14,6 milljarðar á þessu ári ef áætlanir ganga eftir. Það fé verður notað til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þá fyrirvara verður að gera að áætlunin miðast við að órói á erlendum fjármálamörkuðum dragi ekki úr eftirspurn eftir íslenskum útflutningsvörum þótt blikur geti verið á lofti að því er varðar afurðir stóriðju. Minni hagvöxtur erlendis og hugsanleg áhrif hér á landi geta dregið úr þeim vexti einkaneyslu og fjárfestingar sem tekjuáætlunin byggir á. Þá er óvissu háð hve mikið af fjárheimildum ársins verða nýttar í ár og flytjast á milli ára í árslok. Því til viðbótar eru horfur á að greiddir vextir ríkissjóðs minnki minna en gert er ráð fyrir í áætluninni vegna innköllunar ríkisskuldabréfa á árinu. Ef af verður munu vaxtagjöld í framtíðinni hins vegar verða minni sem nemur innkölluninni. Þessi atriði gefa þó ekki tilefni til að endurskoða áætlunina og verður endurskoðuð áætlun lögð fyrir í desember eins og venja er. Markmið ríkisstjórnarinnar er óbreytt um að nota það svigrúm sem myndast eins og kostur er til að lækka skuldir ríkisins.

Þær breytingar eru gerðar á lánsfjárheimildum að tekin eru upp ákvæði eins og voru í lánsfjárlögum áður, þ.e. áður en þau voru felld inn í fjárlög, um að fjmrn. geti heimilað aðilum sem njóta ríkisábyrgðar að skuldbreyta lánum sínum þegar hagstæðari kjör eru talin bjóðast. Þá liggur fyrir beiðni frá Húsnæðisstofnun ríkisins um að heimild til útgáfu húsbréfa í ár verði aukin um 3 milljarða kr. eða úr 16,5 milljörðum í 19,5 og hefur erindi vegna þessa þegar verið sent fjárln. Til að tryggja hnökralausa útgáfu húsbréfa er farið fram á að fjárln. staðfesti að nefndin muni leggja fyrir Alþingi tillögu þess efnis að heimild til útgáfu húsbréfa verði aukin um 3 milljarða á þessu ári.

Herra forseti. Ég hef farið nokkrum almennum orðum um frv. og þá stefnu sem fram kemur í því. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda einstaka liði í frv. umfram það sem hér hefur verið gert en legg að lokum til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.