Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 14:17:41 (782)

1998-11-03 14:17:41# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. til fjáraukalaga er lagt fram hefur kannski ekki gefist tími til að fara mikið ofan í þær tölur og aðgerðir sem um er að ræða í frv. En það eru nokkur atriði sem mig langar til að nefna.

Í fyrsta lagi er ný framsetning á sjálfu frv. Það er sett fram samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins og gerir það að verkum að öll framsetning er samanburðarhæfari. Það er miklu betra að líta á tölur sem verið er að fjalla um og skoða þær í samræmi við gildandi fjárlög og reikninga. Ég fagna því eins og þegar fjárreiðum ríkisins breytt var á þann veg sem nú er. Ég lét það þá skýrt í ljósi að það væri mér að skapi og ugglaust fleiri þingmönnum á þeim tíma sem það var gert.

Í gegnum árin hef ég alltaf gagnrýnt veittar en óhafnar fjárheimildir og ég tel að ástæða sé til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort einhverjar hugmyndir séu uppi um að breyta þeim háttum sem menn hafa haft, þ.e. að ráðuneytin hafa verið með fjárheimildir sem þau hafa ekki notað á milli ára og fengið þær fluttar ár eftir ár eftir ár, ekki hvað síst ráðuneyti hæstv. fjmrh. Ég tel þetta óeðlilegt. Ég tel að það væri a.m.k. skref í áttina að menn felldu niður 75% af óhöfnum fjárheimildum við hver áramót. Það væri það rétta og mundi gera það að verkum að skilvirkara væri ef þær fjárheimildir sem menn sækjast eftir til ráðstöfunar væru nýttar á því ári sem um er beðið. Annars getur maður ályktað að einungis sé verið að fá sér öryggisnet og menn séu að sækjast eftir því.

Það er rétt að geta þess, eins og fram kom í ræðum minni hlutans, að við síðustu fjárlög stefndi í það að 10--11 milljarða vantaði upp á tekjurnar. Og það passaði alveg, enda eru útgjöldin 12 milljarðar umfram áætlun, þar af tæpir 9,5 milljarðar vegna lífeyrisskuldbindinga, eins og frægt er orðið. Það var getið um það í ræðum minnihlutamanna við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1998, þó var ekki tekið tillit til þess.

Það sem mér finnst vera miður varðandi fjárlögin og fjáraukalögin er að ekki var hlustað á þau rök sem sett voru fram við fjárlagaafgreiðsluna í desember 1997, þ.e. að 1,5 milljarða vantaði vegna heilbrigðiskerfisins, --- þó var það fyrirliggjandi --- en kemur síðan fram í fjáraukalögum árið eftir. Ég ætla ekki að rekja þær tölur frá stofnun til stofnunar sem þó væri ástæða til vegna þess að núna er stefnt í að fara af stað á sama máta, þó fyrirsjáanlegt sé að stóru spítalarnir í Reykjavík verði keyrðir með halla þrátt fyrir að menn hafi reynt að klóra verulega í bakkann og leiðrétta. Þetta eru hlutir sem ég tel að við þurfum að bæta, ekki síst fyrir það að fyrirsjáanlegt er hvert stefnir í þeim málum.

Það væri kannski ástæða til þegar maður er að velta fyrir sér frv. til fjáraukalaga að spyrja hæstv. fjmrh. hvort fyrirhugaðar séu einhverjar aðgerðir vegna skattsvika. Það er ástæða til að taka á því máli. Þetta er vandamál sem er í þjóðfélaginu. Núna þegar allir virðast hafa nóg að gera fæst ekki fólk t.d. til viðhaldsvinnu nema gengið sé frá þeim málum nánast á þann veg að ekki sé gefið upp til skatts. Þetta er viðurkennt vandamál í þjóðfélaginu og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann hugsi sér að taka á því máli. Það hefur verið talað um 11--14 milljarða sem eru einhvers staðar í neðanjarðarhagkerfinu sem fari fram hjá. Þar held ég að við sem erum á hv. Alþingi gætum tekið sameiginlega á og reynt að lagfæra þá hluti. Þetta er mesta skömm og ég kalla það þjóðarskömm að allir skuli vita um þetta en enginn vilji gera neitt í þessum málum.

Mig langar síðan, herra forseti, að koma að öðru máli sem er ekki beint tengt frv. til fjáraukalaga en vil nota þetta tækifæri. Það er vegna breytinga á lögum sem voru felld úr gildi, þ.e. lög nr. 34/1995 voru felld úr gildi með lögunum nr. 83/1998, þ.e. um vörugjald af olíu. Það frv. var samþykkt af 23 aðilum í þinginu en bróðurpartur þingmanna sat hjá við afgreiðslu þessa máls. (Gripið fram í.) Þetta er olíugjaldsmálið. Og olíugjaldið varð ekki að veruleika eins og menn ætluðu sér. Þetta frv. var þá flutt af hæstv. þáv. fjmrh. og ég tel að menn hafi gert mikla skekkju þegar það var gert.

Mér finnst vera ástæða til að spyrja um það mál. Spyrja hvort hæstv. fjmrh. sé kunnugt um hversu miklar tekjur hafa orðið til vegna sekta hjá þeim sem eru að aka þungaflutningabílum um vegi landsins, og einnig hvort fyrirhugað sé að breyta aftur til þess sem hæstv. fyrrv. fjmrh. ætlaði sér, þ.e. að setja olíugjald á.

Ég held að á ferðinni sé svo mikil mismunun milli aðila, milli þessara litlu einkaaðila og tröllanna á vegunum, sem eru stóru flutningafyrirtækin sem búa við allt önnur skilyrði en litlu einkaaðilarnir sem eru kannski með einn, tvo, þrjá vöruflutningabíla á móti tröllunum á vegunum. Ég þarf ekki að útskýra það nánar hvað um er að ræða, ég veit að hæstv. fjmrh. er mjög vel kunnugt um að það er misjöfn aðstaða og misjöfn afkoma þessara aðila og misjöfn gjöld á þá lögð. Það eru stóru aðilarnir sem bera minni gjöldin af því að þeir geta gert sína bíla út sem flutningaskip. Það er merkilegt mál. Ég á eftir að gera þessu máli betri skil síðar. En mér fannst rétt að nota þetta tækifæri til að minnast á þetta. Síðar gæti komið til að þetta mál yrði sett fram í skriflegri fyrirspurn og þá gætum við rætt þetta mál nánar, ég og hæstv. fjmrh., en ég vildi fá að vita hjá honum hvort hann hugsaði sér að flytja á ný frv. um olíugjald. Þetta er mikið hitamál hjá mörgum aðilum sem búa við þær aðstæður sem ég var að nefna.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta frv. til fjáraukalaga. Ég læt það bíða þangað til við höfum fengið umsögn Ríkisendurskoðunar um framsetningu þess. Ég hygg að þetta sé allt saman gert með góðum og formlegum hætti, ég sé ekki ágalla á þessu máli. En ég gagnrýni, eins og ég gerði í upphafi, að um sé að ræða óhafnar fjárveitingar árum saman sem ráðuneytin sækja eftir og fá leyfi til að flytja á milli ára. Það ætti að fella niður kannski fyrstu tvö árin 75% af óhöfnum fjárveitingum og síðan að fullu og öllu.