Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 14:29:05 (783)

1998-11-03 14:29:05# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nokkur orð um fjáraukalagafrv. hæstv. fjmrh. sem hér er til umræðu. Í fyrsta lagi er það auðvitað athyglisverð staðreynd, en staðreynd samt engu að síður, að búskapurinn hjá hæstv. ráðherra er býsna blómlegur að því leyti til að tekjuauki ríkissjóðs er umtalsverður. Það er sjálfsagt að ræða þá hluti bara eins og þeir liggja fyrir.

[14:30]

Samkvæmt töflu á bls. 50 í fskj. með frv. er 9 milljarða aukning á tekjum ríkissjóðs miðað við þá áætlun sem er nú unnið eftir frá fjárlögunum eins og þau standa prentuð fyrir árið 1998. Það er auðvitað ágætisbúbót. Að vísu aukast gjöldin einnig allverulega eða um 12 milljarða eins og það er bókfært hér. Að vísu er um að ræða gjaldfærslu á áætluðum áföllnum lífeyrisskuldbindingum sem greiða þarf í framtíðinni en koma ekki til greiðslu á árinu þannig að það fer eftir því hvernig því er stillt upp. Engu að síður er alveg ljóst að tekjuaukinn er umtalsverður og lánsfjárjöfnuðurinn verður jákvæðari en áður var talið. Þetta er gott og blessað og að sjálfsögðu tilefni til að gleðjast yfir.

Hitt er öllu verra sem ég veit að hæstv. fjmrh. viðurkennir að þessi tekjuauki er að langmestu leyti til kominn vegna meiri eyðslu og það eyðslu umfram efni í þjóðfélaginu en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þessi tekjuauki er fyrst og fremst bein afleiðing af því að nú gera menn ráð fyrir mun meiri viðskiptahalla, meiri innflutningi og þar með meiri tekjum ríkissjóðs úr þeirri átt en áður var talið og var þó um háar tölur þar að ræða strax í byrjun ársins eða í þjóðhagsáætlun síðasta árs sem lögð var til grundvallar við afgreiðslu fjárlaga.

Viðskiptahallinn sem áætlaður var á bilinu 20--25 milljarðar kr., ef ég ég man rétt, þegar við vorum að ræða þessi mál um síðustu áramót er núna áætlaður verða 35--37,5 milljarðar eða eitthvað á þeim nótum. Það liggur í hlutarins eðli að þessi aukni viðskiptahalli og meiri innflutningur sem þessu nemur, sem skýrir að mestu leyti þennan aukna viðskiptahalla, felur í sér umtalsverðan tekjuauka ríkissjóðs en það er ekki að sama skapi jákvætt að þessi viðskiptahalli er að sjálfsögðu ávísun á skuldaaukningu einhverra. Þó ekki sé ríkissjóðs, þá er hann ávísun á skuldaaukningu þjóðarbúsins í heild út á við og það eru fyrst og fremst tveir aðilar sem safna auknum skuldum um þessar mundir. Það eru sveitarfélögin og það eru heimilin á sama tíma og ríkissjóður greiðir sínar skuldir niður og ég hygg að atvinnulífið sé ekki að auka skuldir sínar nema þá sem nemur beinum fjárfestingum og þá aðallega stórfjárfestingar stóriðjufyrirtækja eða virkjunaraðila.

Í þjóðhagsáætlun sem fylgdi fjárlagafrv. og rædd var á dögunum, herra forseti, segir um þetta mál, með leyfi forseta:

[14:45]

Að lokum væri fróðlegt, herra forseti, að heyra álit hæstv. fjmrh. á einum litlum lið sem heitir Utanríkisráðuneytið. Við ræddum í fyrra það vandræðabarn þegar svo var komið að fjáraukalög ársins 1997 höfðu, held ég, vaxið um hálfan milljarð kr. eða þar um bil vegna tilfallandi viðbótarútgjalda í utanrrn. Það var auðvitað með ólíkindum hvernig þetta litla ráðuneyti gat vanáætlað þörf sína á fé. Í ljós komu heilu sendiráðin, lóðir og bústaðir sem voru að hruni komnir. Þar þurfti að kaupa eða leigja og kostaði hundruð milljóna. Menn áttuðu sig allt í einu á því að sendiráðið í London var hrunið og það kostaði 150 eða 200 milljónir (Gripið fram í.) að lappa upp á það. Nei, upphæðin var hærri, herra forseti, það voru 290 milljónir á miðju ári 1997 sem fengust bara sisona í fjáraukalögum í sendiráðið í London. Það reyndist ekki nóg því nú þarf 17 milljónir í viðbót.

Nú þarf mikla aukafjárveitingu í Berlín, 102 milljónir, og fékkst þó víst lóðin á góðu verði því að þarlendir ku hafa gert einhver mistök. Í París þarf að kaupa sendiherrabústað. Þar er aukafjárveiting upp á 180 milljónir o.s.frv.

Mér er alveg sama þó að að einhverju leyti hafi verið heimild fyrir þessu án upphæðar í 6. gr. fjárlaga. Kannski er það 7. gr. núna. Er áætlanagerðin á því stigi í utanrrn., að ár eftir skuli þurfa mörg hundruð milljónir í aukafjárveitingar? Maður hefði haldið að þeir tækju sig á og reyndu að gera einhverja raunhæfa áætlun fyrir þetta ár. En þetta er aftur svona og nú þarf utanrrn., bara í liðinn Sendiráð almennt, 299 millj. kr. aukafjárveitingu. Það er u.þ.b. tekjutapið sem íslenskir bændur verða fyrir vegna verðfalls á gærum. Einhverjum hefði kannski dottið í hug að þeir peningar væru ekki verr komnir þar, að reyna að bæta aðeins stöðu fátækustu stéttar landsins vegna þeirra áfalla sem hún hefur orðið fyrir. Hverju svaraði hæstv. landbrh. aðspurður um það hér í gær? Engu. Það kom ekki til greina. Það var ekki til króna í að mæta því hroðalega áfalli sem verðhrun á gærum er fyrir sauðfjárbændur. Hv. þm. Egill Jónsson hefur enga tillögur flutt um það en hann ætlar að standa að fjáraukalagafrv. um tæpar 300 millj. kr. í aukafjárveitingar í sendiráðin enda er það auðvitað brýnast nú um stundir.

Auðvitað þarf að reka utanríkisþjónustuna og sjálfsagt þarf að leggja út fyrir húsnæðiskostnaði af og til. En mér blöskrar að það skuli þurfa að gerast með þessum hætti ár eftir ár, að sulla þurfi hundruðum milljóna kr. í aukafjárveitingu þegar langt er liðið á árið til að bregðast við slíku. Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. fjmrh. gæti upplýst okkur um fjármálastjórnunina í þessum málum. Ég veit að hér inni eru fleiri áhugamenn um þetta, t.d. 1. þm. Vesturl.