Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 14:49:25 (784)

1998-11-03 14:49:25# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[14:49]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta fjáraukalagafrv. sem komið er til 1. umr. er fyrsta fjáraukalagafrv. skv. nýjum lögum um fjárreiður ríkisins. Ég ætla að segja örfá orð við 1. umr. en hef að sjálfsögðu tækifæri til þess að koma nánar inn á einstök atriði við 2. umr. þegar fjárln. hefur lokið yfirferð sinni.

Vissulega ber frv. þess merki að ný lög eru komin í gildi. Vegna þeirra er ríkissjóður er í heild afgreiddur með halla á rekstrargrunni á þessu ári en það er einkum vegna lífeyrisskuldbindinga sem hæstv. fjmrh. hefur þegar gert grein fyrir í ræðu sinni.

Varðandi lífeyrisskuldbindingar vildi ég aðeins koma inn á að vissulega er þetta skuldbinding sem ríkinu ber að greiða í framtíðinni. Ég vildi eigi að síður undirstrika að þetta er lífeyrir sem kemur til greiðslu og ráðstöfunarfé eftirlaunaþega framtíðarinnar, það skiptir miklu máli. Upphæðin sem þarna kemur inn kemur til með að styrkja stöðu þeirra verulega og auka ráðstöfunarfé þeirra. Við megum ekki gleyma þessu þegar rætt er um þessar skuldbindingar.

Að öðru leyti má segja að rekstur ríkissjóðs sé í jafnvægi. Ef lífeyrisskuldbindingarnar eru frátaldar þá er verulegur tekjuafgangur á ríkissjóði. Það er vissulega vegna þess að tekjur ríkissjóðs hafa aukist mjög fram yfir áætlun á árinu. Þversögnin er í því fólgin, eins og hefur komið fram hér í umræðunni, að það eru hættumerki því samfara. Hættumerkin eru að vaxandi viðskiptahalli geti leitt til aukinnar verðbólgu. Þess vegna hefur ríkisstjórnin haft til athugunar hvernig hægt væri að auka þjóðhagslegan sparnað. Það þarf að gera þannig að fyrir þá sem eitthvað hafa aflögu sé einhver hvati til þess að spara.

Það er rétt að skuldasöfnun heimilanna hefur farið vaxandi og hluti af því er vissulega vegna aukins innflutnings á neysluvörum. Ég held að það þurfi að huga gaumgæfilega að því hvernig hægt sé að hvetja fólk til sparnaðar. Hluti af þessum innflutningi er vegna fjárfestingarvara en það er jafnframt ein af ástæðum þess að tekjurnar aukast, bæði tekjur ríkissjóðs og almennings í landinu. Hjól atvinnulífsins hafa snúist á þessu ári og þessu kjörtímabili, svo maður taki það í heild.

Hins vegar segir lánsfjárjöfnuðurinn best til um hina raunverulegu stöðu ríkissjóðs. Í mínum huga er það mikilvægasta atriðið sem þessi fjáraukalög sýna. Ef ég vitna til bls. 51 í fjáraukalagafrv. þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Að teknu tilliti til rekstrarliða sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi og til fjármunahreyfinga er talið að lánsfjárafgangur ríkissjóðs geti orðið um 14,7 milljarðar kr. Fyrirhugað er að bætt staða ríkissjóðs verði nýtt til að greiða niður skuldir hraðar en ella. Er það í fyrsta sinn í meira en hálfan annan áratug sem ríkissjóður þarf ekki að taka lán til að mæta fjárþörf vegna rekstrarhalla og lánveitinga.``

Þetta er afar mikilvægt og nauðsynlegt, þegar svo hagar til eins og nú, að ríkissjóður þrengi sér ekki inn á lánamarkaðinn og gangi ekki á undan í umframeyðslu. Mér finnst lífeyrisskuldbindingar nokkuð á öðrum báti hvað þetta snertir þó að vissulega séu það útgjöld ríkissjóðs bæði nú og í framtíðinni.

Ég mun ekki hafa mörg orð um einstaka liði fjáraukalaganna nú, eins og ég sagði í upphafi. Ég læt nægja að geta þess að þar er tekið á nokkrum mikilvægum málum sem hafa verið í vinnslu. Þar eru m.a. lagðir nokkrir fjármunir til Byggðastofnunar til að standa straum af aðgerðum á sauðfjárræktarsvæðum. Þar eru lagðir viðbótarfjármunir til löggæslu, en endurskoðun þeirra mála og miklar breytingar á löggjöf hafa verið í vinnslu hvað hana snertir. Einnig hefur farið fram gagnger endurskoðun á löggjöf um þjóðkirkjuna og aukafjárveitingar hér varðandi hana eru í tengslum við þær breytingar.

Varðandi heilbrigðismálin er það að segja að við höfum unnið mikið í þeim. Hún er náttúrlega alveg fráleit sú dramatíska lýsing sem hv. 4. þm. Norðurl. e. fer hér með við hverja umræðu, hvort sem hún er um fjárlög eða fjáraukalög, á því hvernig við látum forsvarsmenn sjúkrahúsa skríða á fund ráðuneyta og fjárln., blóðrisa, með bundið fyrir augu, leiðum þá inn í dimm herbergi í ráðuneytum þar sem þeir séu píndir. Þetta er auðvitað algjörlega fráleitt vegna þess að vinnan hefur verið fólgin í að fara yfir mál sjúkrahúsanna í samráði við þessa forustumenn. Ég veit ekki betur en að nýráðinn sé í ráðuneytinu fyrrv. sjúkrahúsráðsmaður utan af landi sem vinnur í þessum málum. Þar er verið að styrkja innviði og auka starfslið til að ná utan um þessi mál. Ég held að verðugra væri að fagna því að verulegir viðbótarfjármunir eru veittir í fjárlögum og fjáraukalögum til að standa straum af hinni miklu fjárþörf sem er í þessum geira. Náttúrlega er ljóst að fara verður vel í gegnum þennan rekstur á hverjum tíma. Fjárþörfin er mikil og vaxandi og alls ekki sama hvernig staðið er að þessum málum.

Hv. þm. gerir ekki mikið úr vinnu fjárln. í þessu sambandi. Ég tek það svo sem ekki mjög nærri mér eða alvarlega. Ég vil geta þess að fjárln. hefur fylgst mjög náið með þessum málum. Það voru beinlínis ákvæði um að hún ætti að fylgjast með þeim í samþykktum sem gerðar voru þegar fjárlög voru afgreidd. Það hefur verið gert, fjárln. verið upplýst um gang mála og niðurstöðurnar hafa borist nefndinni.

Af því að hæstv. fjmrh. gat um að þörf væri á viðbótarútgáfu húsbréfa á þessu ári upp á 3 milljarða þá vil ég vil geta þess að fjárln. samþykkti fyrir sitt leyti, á fundi sínum í morgun, að gera brtt. við fjáraukalögin þegar þau koma til nefndarinnar um að heimild til útgáfu húsbréfa verði hækkuð um 3 milljarða frá þeim heimildum sem í gildi eru á þessu ári þannig að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að útgáfa húsbréfa haldi áfram og afgreiðsla þeirra mála geti gengið eðlilega fyrir sig.

[15:00]

Ég vil einnig segja, af því að komið var inn á kjarasamninga og gagnrýnt nokkuð að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra hvorki í fjárlögum né fjáraukalagafrv., að það er rétt að ýmsir aðilar hafa komið til viðtals við fjárln. sem hafa talið að þarna vantaði upp á. En þessi mál eru enn til skoðunar í fjmrn. og það er af eðlilegum ástæðum vegna þess að kjarasamningar, svokallaðir aðlögunarsamningar, sem allir vita um og þekkja, hafa staðið yfir allt fram undir þennan tíma og í framhaldsvinnu fjárln. munum við vissulega kalla eftir þeim niðurstöðum sem ráðuneytið hefur um þessi efni. Það er því ekki búið að ganga frá þessum málum af eðlilegum ástæðum. En við höfum tekið við þessum upplýsingum frá þeim sem koma til viðtals við okkur og munum ræða þær við fjmrn. í okkar framhaldsvinnu.

Ég ætla, eins og ég segi, ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég mun hafa tækifæri til þess við 2. umr. málsins þegar fjárln. hefur lokið sinni vinnu við frv.