Ríkisreikningur 1997

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:20:24 (793)

1998-11-03 16:20:24# 123. lþ. 18.9 fundur 152. mál: #A ríkisreikningur 1997# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er lítið við skýrslu hæstv. fjmrh. að bæta nema að þetta er náttúrlega allt á mjög góðri leið, ríkisreikningurinn sömuleiðis. Hann sýnir góða afkomu ríkissjóðs. Þó sakna ég þess að sjá ekki samanburð við síðustu fjáraukalög og fjárlög til þess að sjá hvernig til hefur tekist á árinu 1997. Fjárlög voru upphaflega lögð fram í árslok 1996 sem ákveðin spá um afkomu ríkissjóðs og um leið lagasetning um kvaðir á útgjöld stofnana og síðan koma fjáraukalög sem breyta þeirri spá og breyta þeim ramma og að lokum kemur ríkisreikningur sem segir hvernig til tókst. Það hefði verið gaman að sjá í þessu frv. samanburð á milli síðustu fjáraukalaga g síðan endanlegs ríkisreiknings. (Fjmrh.: Það er í fjáraukalagafrv. fyrir 1997.) Takk fyrir.

Ég bendi á lífeyrisskuldbindingarnar enn þá einu sinni sem voru 94,9 milljarðar í lok ársins og hafa vaxið umtalsvert síðan. Þetta er skuldbinding sem er um 350 þús. kr. á hvern einasta Íslending eða 1,4 millj. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessir fjármunir bera 3,5% vexti eins og ég gat um fyrr í dag þannig að af þessari tölu þarf að reikna vexti. Þetta fer hratt vaxandi á árinu 1998 og ég held að menn þurfi að fara að horfa mjög alvarlega á þessa tölu sem eru lífeyrisskuldbindingarnar.

Það er mjög ánægjulegt að sjá aftast í frv. ágrip af eignaskrá. Þetta eru byrjunarskref en það er mjög mikilvægt að ríkið haldi eignaskrá og löngu tímabært. Ég er mest hissa á því að ríkið skuli ekki hafa týnt eignum. T.d. held ég að Landsbankinn hafi hvergi verið færður í ríkisreikningi þannig að hann hefði getað týnst í eignaskrá ríkisins. En það er mjög mikilvægt að ríkið haldi skrá yfir allar eignir sínar.

Að öðru leyti tek ég undir þakkir til hæstv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh. fyrir mjög góða niðurstöðu á fjárlögum.