Stimpilgjald

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:41:48 (797)

1998-11-03 16:41:48# 123. lþ. 18.11 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Með þessu litla frv. er lagt til að lögum um stimpilgjald verði breytt nokkuð og tekið verði skýrt fram um allar undanþágur og heimildir til undanþágna frá greiðslu stimpilgjalds og þar með að almenn heimild fjmrh. til að ákveða hvort ríkissjóður greiði gjaldið falli niður ásamt ýmsum öðrum undanþágum sem tilgreindar hafa verið í sérlögum eða fjárlögum. Hérna er um það að ræða að taka fram með pósitívum hætti, eins og stundum er sagt, hvaða undanþágur eru í gildi en leggja það ekki í vald ráðherrans að meta slíkt og jafnframt að taka það skýrt fram í lögunum á almennum grundvelli í stað þess að vera með slíkar undanþágur til að mynda í fjárlögum eins og tíðkast hefur að því er varðar flugvélakaup hingað til lands þar sem tilgreind hafa verið sérstök tæki, tilgreindar flugvélar á skráningarnúmerum.

Þetta er meginefni þessa frv. Þó er ein breyting sem getur haft efnislega þýðingu vegna þess að gert er ráð fyrir því að afsalsgerningar eða skjöl sem leggja höft eða bönn á kaupskip, sem eru einkum ætluð til farmflutninga og eru rekin af félögum sem einkum stunda reglubundnar áætlunarsiglingar eða leigusiglingar innan lands eða á milli landa, falli niður. Slík skjöl verði sem sagt stimpilfrjáls.

Þannig háttar til um þessi mál að kaupskip sem skráð eru hérlendis eru orðin sárafá, m.a. vegna þess að stimpilkostnaðurinn er mikill. Hann hefur virkað þannig að hann hefur fælt frá þá aðila sem hérna er um að tefla og þess vegna er ekki um það að ræða að hér sé tekjutap á ferðinni fyrir ríkissjóð heldur þvert á móti muni þetta hugsanlega geta orðið til þess að draga inn í landið skráningu skipa og hugsanlega einhverjar tekjur í því sambandi. Þetta er út af fyrir sig angi af miklu stærra máli sem varðar starfsskilyrði kaupskipaútgerða og deilur sjómanna við útgerðir en þessi litli angi af málinu er hins vegar beintengdur ríkinu og við höfum tekið þá afstöðu í ríkisstjórn að reyna að koma þarna til móts við þessa starfsemi m.a. vegna þess að núgildandi reglur hafa enga þýðingu og skila engum tekjum en eru frekar til bölvunar fyrir þá sem hlut eiga að máli.

Að því er varðar loftförin er eins og ég sagði áðan sett inn almennt ákvæði fyrir þá sem eru með atvinnurekstur í flugi, hvort heldur er innan lands eða milli landa, hvort heldur í áætlunarflugi eða leiguflugi, það sama eigi við um þá, þá gildi stimpilfrelsi að því er varðar skjöl í viðskiptum með þessi tæki en þó þannig að ekki verði hægt að þinglýsa almennum viðskiptaskuldum á þessi tæki heldur eingöngu skjöl og skuldbindingar sem tengjast fjármögnun sjálfra vélakaupanna. Það eru held ég eðlileg skilyrði.

Síðan er hérna, eins og ég sagði í upphafi, verið að tilgreina ýmsar aðrar undanþágur sem ástæðulaust er að tíunda og sem skýrast í frv. En vegna þessara atriða er nauðsynlegt að fella brott ákvæði um stimpilfrelsi í lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna vegna þess að það ákvæði kemur hér inn og sambærilegt ákvæði í nýlegum lögum um húsnæðismál vegna þess að ákvæðið um skuldabréf Íbúðalánasjóðs kemur inn í þetta frv. með sama hætti.

Það má spyrja, herra forseti: Hvað varð um stimpilgjaldafrv. mikla sem var á síðasta þingi? Það hlaut ekki afgreiðslu, á því voru gallar og stimpilgjaldið er að mörgu leyti gallagripur eins og við vitum. Ekki skal dregin fjöður yfir það. Það mál er hins vegar stærra í sniðum en svo að það verði til úrlausnar á þessu þingi. Þar er um að ræða tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem er mjög umfangsmikil og ekki er hægt að kasta út um gluggann í einu vetfangi. En vissulega eru ýmsar hugmyndir uppi um hvernig gera megi þá tekjuöflun nútímalegri en felst í núgildandi lögum um stimpilgjald, en það bíður betri tíma. Hér er um að ræða eingöngu minni háttar lagfæringar á þessum lögum en að öðru leyti bíður það mál þess að ný endurskoðun verði hafin á þessum lögum og það frv. sem samþykkt var á síðasta þingi tekið til nýrrar meðferðar og endurskoðunar í fjmrn.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.