Stimpilgjald

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:47:15 (798)

1998-11-03 16:47:15# 123. lþ. 18.11 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér eru felldar niður almennar heimildir til hæstv. fjmrh. og það er af hinu góða. Það er jákvætt og veitir aga að hann geti ekki veitt almennar heimildir til þess að gera pappíra stimpilgjaldsfrjálsa.

Ég tek þó helst eftir því í þessu frv. sem ekki stendur í því, eins og hæstv. fjmrh. gat um, þ.e. um nauðsyn þess að afnema stimpilgjöld á meginhluta þeirra skjala sem stimpluð eru. Eins og hæstv. fjmrh. kom inn á er stimpilgjaldið ákaflega hemjandi á viðskipti. Þetta er meingallaður skattur, sérstaklega ef um er að ræða skammtímapappíra þar sem stimpilgjaldið getur orðið svo hátt að eðlileg útgáfa skammtímapappíra verður ómöguleg. Þá bregðast menn að sjálfsögðu við og fara í kringum lögin --- jafnvel Seðlabanki Íslands. Hann stundar viðskipti með ,,endurhverf verðbréf``. Endurhverf verðbréf eru verðbréf sem hverfa til Seðlabankans aftur þegar þau eru greidd upp, þ.e. þau eru aldrei greidd upp heldur kaupir hann þau til baka. Hann getur því notað sama verðbréfið aftur og aftur og greiðir aðeins einu sinni af því stimpilgjald. Þannig hygg ég að þetta sé gert hjá Seðlabankanum sem er opinber aðili.

Þannig leysa menn að sjálfsögðu vandamálið þegar stimpilgjaldið gerir það að verkum að ekki er hægt að lána peninga í viku eða einn mánuð. Þetta er hins vegar mjög óeðlilegt. Þetta ætti ekki að vera svona.

Svo má benda á það, herra forseti, að stimpilgjaldið er aðallega skattur á skuldara og oft og tíðum skattur á skuldara í neyð, sem neyðast til að skuldbreyta, neyðast til að taka ný lán, neyðast til þess að skuldajafna og semja. Alltaf skulu þeir borga stimpilgjald til ríkissjóðs. Ég hef stundum kallað stimpilgjaldið skatt á neyð og hann er mjög óeðlilegur í þeirri stöðu.

Það sem ég vildi sjá, herra forseti, og ákveðnir hv. þm. í efh.- og viðskn. voru að hugsa um var að stimpilgjaldið yrði afnumið í áföngum og takmarkað við þinglýsingar eingöngu. Það held ég að sé ákveðin lausn. Vandamálið er að stimpilgjaldið gefur ríkissjóði miklar tekjur, of miklar. Sem vinur ríkissjóðs sem ekki vill sjá halla á ríkissjóði, vegna þess að það er ekkert annað en skattur á börnin okkar og framtíðina, þá mundi ég gjarnan vilja að hæstv. fjmrh. skoðaði þá leið að stimpilgjald yrði afnumið í áföngum, segjum á þremur, fjórum árum, og yrði takmarkað við þinglýsingar.