Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:02:44 (802)

1998-11-03 17:02:44# 123. lþ. 18.12 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er ekkert nýtt að við heyrum hv. þm. Pétur H. Blöndal flytja þessa ræðu. Allar götur frá því að farið var að ræða um lífeyrissjóði og breytingar á löggjöf um lífeyrissjóði kom fram að honum eru þyrnir í auga samtryggingarsjóðir, lífeyrissjóðir. Hann er einn þeirra sem hafa gengið hvað harðast fram í því að koma lífeyrissparnaði í hendur einkaaðila, fyrirtækja á borð við Kaupþing og önnur sem höndla með sparnað landsmanna þannig að þetta er ekkert nýtt. Það er heldur ekkert nýtt að hann leggi til nýjar leiðir og aðrar til að brjóta niður áhrif verkalýðsfélaga, samtaka launafólks, og draga þannig úr virku lýðræði í stjórn lífeyrissjóðanna. Þetta er ekkert nýtt.

Hitt vil ég leggja áherslu á að þessi grein, 3. gr. frv., verði tekin til endurskoðunar þannig að meira jafnræði ríki á milli atvinnurekendahliðarinnar og hliðar launafólks.