Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:05:19 (804)

1998-11-03 17:05:19# 123. lþ. 18.12 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er glaður að heyra að Pétur H. Blöndal sé fylgjandi samtryggingarlífeyrissjóðum. (PHB: Alltaf verið.) Og ef ég hef haft hann fyrir rangri sök þá bið ég hann afsökunar á því. En mér hefur fundist málflutningur hans yfirleitt vera á annan veg.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal segist vera hlynntur því að sjóðfélagar kjósi sér stjórn og leggur áherslu á að þeir eigi sjóðinn. Hann hefur lagt til að fundir, sem yfirleitt reynast fámennir fundir sjóðfélaga, kjósi þessa stjórn (PHB: Ekki ef þeir eru ...) í stað þess að leitað sé eftir víðtækara umboði sem þá hefur verið gert í gegnum samtök launafólks þar sem miklu fleiri koma að máli og kjósa eða tilnefna í þessar stjórnir.