Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:29:49 (809)

1998-11-03 17:29:49# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er mælt fyrir till. til þál. um skattfrádrátt meðlagsgreiðenda. Samkvæmt tillögugreininni er gert ráð fyrir að skipa nefnd til að kanna þetta mál, en það fer ekki á milli mála að hugmynd flutningsmanna er sú að meðlagsgreiðslur skapi forsendur til skattafsláttar þannig að gera yrði breytingar á skattalögum eða standa þannig að verki að það tryggði þennan aðgang að skattafslætti, þ.e. að greiða meðlag.

[17:30]

Ég verð að viðurkenna það, herra forseti, og segja það að ég er mjög andvígur þeirri hugmynd. Ég er ekki á móti því að þetta mál verði skoðað en ég er mjög andvígur því að meðlagsgreiðslur geti skapað leið til skattafsláttar. Ástæðan fyrir því að ég get ekki verið sammála þeirri hugsun er sú að með því væri öðru foreldri, þ.e. því foreldri sem sér um framfærslu barnsins og allan kostnað af framfærslu barnsins, ekki sköpuð sömu réttindi gagnvart skattkerfinu, það væri einugis sá sem greiðir meðlagið sem fengi skattafslátt. Þar til viðbótar væri ekki komið til móts við þá sem ættu e.t.v. erfiðast með að greiða, þ.e. þá sem væru tekjulægri. Í tvennum skilningi væri þarna um mismunun að ræða, bæði gagnvart þeim sem sér um framfærslu barnsins og svo hins vegar mismunun að þeim mun hærri tekjur, þeim mun meiri afsláttur.

Í ljósi þessa verð ég, herra forseti, að lýsa þeirri afstöðu minni að ég tel ekki skynsamlegt að fara þá leið sem mér sýnist að flutningsmenn tillögunnar hugsi sér að fara.

Í dag er þetta kerfi þannig að Innheimtustofnun sveitarfélaga sér um að standa skil á þeim meðlögum sem eru ekki greidd. Þar hefur safnast upp mikill vandi sem sveitarfélögin bera, því að jöfnunarsjóðurinn er þar í tryggingu fyrir, og það hefur verið mikið ágreiningsefni á milli sveitarfélaganna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar að hafa þennan háttinn á. Oft hefur verið tekist á um það því að þarna hafa safnast upp mikil vanskil, þ.e. það hafa safnast upp mikil vanskil hjá þeim sem hafa ekki greitt meðlög sín.

Auðvitað geta foreldrar lent í margs konar fjárhagslegum vandræðum, sumir lenda í greiðsluerfiðleikum og geta ekki greitt meðlög sín. Til þess eru oft ærnar ástæður og hægt að hafa skilning á því. En ég held að þegar litið er á þessar meðlagsgreiðslur annars vegar og svo hins vegar litið til þess hversu mikill kostnaður fylgir framfærslu barnsins hjá því foreldri sem sér um framfærsluna þá held ég að þegar upp er staðið sé hlutur meðlagsgreiðandans ekki meiri en þess sem sér um allan kostnað af uppeldi barnsins. Þarna er því um að ræða mjög flókið og erfitt mál. Mér er ljóst að margir eru í vandræðum gagnvart Innheimtustofnuninni en ég held að það eigi að finna aðra leið en þá að veita þeim skattafslátt sem greiða meðlögin. Ef ætti að gera það þá yrði með sama hætti að finna leið til þess að sá sem sér um framfærsluna njóti jafnræðis og þá sams konar skattafsláttar og sá sem greiðir meðlagið. Annað væri ekki forsvaranlegt.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram við umræðuna vegna þess að ég held að ef tillagan yrði samþykkt og Alþingi sendi þann boðskap til þeirrar nefndar sem yrði skipuð og færi ofan í þetta þá væru það ekki þau skilaboð sem ég vildi taka þátt í að senda héðan að standa ætti að því að mismuna foreldrum.